Ráðgjafi forsætisráðherra ætlar ekki að segja af sér

25.05.2020 - 19:55
Mynd: EPA-EFE / EPA
Helsti ráðgjafi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ætlar ekki að segja af sér, þrátt fyrir háværar gagnrýnisraddir um ferðalög hans, í miðjum heimsfaraldri og ferðabanni.

Heimilisfriður er nokkuð sem Dominic Cummings, aðalráðgjafi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, býr ekki við þessa dagana. Ástæða þess að svo rækilega er setið um hann við heimili hans er sú að hann hefur verið áberandi í breskum fjölmiðlum undanfarna daga. 

Þó að Cummings sé með tveggja metra regluna á hreinu, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði, snýst styrinn um að hann hafi alls ekki í einu og öllu hlýtt útgöngu- og ferðabanni stjórnvalda á meðan kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst. 

Guardian og Mirror greindu fyrst frá því að Cummings hefði ferðast rúma 400 kílómetra frá heimili sínu í Lundúnum til fjölskyldu sinnar í Durham. Það hefði hann gert vegna þess að þau hjónin hefðu sýnt einkenni Covid 19 og hann hefði viljað tryggja barni þeirra pössun ef þau veiktust. Fleiri frásagnir af Cummings á ferð og flugi þessa daga hafa í kjölfarið skotið upp kollinum. 

Líkt og fjölmiðlar með ólíka ritstjórnarstefnu gagnrýna aðgerðaleysi Johnson í málinu heyrast óænægjuraddir bæði innan stjórnar og stjórnarandstöðu. Gagnrýnin snýst ekki síst um að enginn megi skilgreina sig undanskilinn reglum, ekki einu sinni þeir sem einhverju ráða. Eitt eigi yfir alla að ganga. 

Cummings hélt sem blaðamannafund síðdegis í dag og þar fékk hann meðal annars eftirfarandi spurningu:

„Herra Cummings, þúsundir áhorfenda, venjulegar fjölskyldur, hafa látið sig alls konar takmarkanir og erfiðleika. Fólk sækir ekki jarðarfarir, fer ekki einu sinni á spítala þar sem börn þeirra gangast undur krabbameinsmeðferðir. Hvers vegna ert þú svona sérstakur?“

Svar Cummings var einfaldlega að hann teldi sig ekkert sérstakann og teldi ekki að aðrar reglur giltu um hann en annað fólk.

Hefðu einhverjir vonast eftir afsögn hans varð þeim ekki að ósk sinni. Cummings byrjaði á að rekja ítarlega allar ferðir fjölskyldunnar undanfarnar vikurnar í nokkuð löngu máli. Hann sagðist hafa tekið ákvarðanir sínar eftir bestu vitund og sæi ekki ástæðu til að segja af sér. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi