Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Norðmenn fara hægar í tilslakanir en Íslendingar

25.05.2020 - 08:24
epa08427110 A Norwegian resident takes part in the flag raising ceremony held on occasion of Norway Day, n Alfaz del Pi, Alicante, Spain, 17 May 2020. The second biggest Norwegian colony out of their country, celebrate Norway Day in a very different way due to the coronavirus health crisis. Several countries around the world have started to ease COVID-19 lockdown restrictions in an effort to restart their economies and help people in their daily routines after the outbreak of coronavirus pandemic.  EPA-EFE/Manuel Lorenzo
 Mynd: EPA - RÚV
Víðtæk sátt ríkir um aðgerðir norskra stjórnvalda í Covid19-faraldrinum. Þetta segir Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Helgelands-sjúkrahússins í Norður-Noregi. Þar í landi verður ferðahömlum og samkomubanni aflétt talsvert hægar en hér á landi.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs sagði í samtali við sænska ríkisútvarpið í síðustu viku, að norsk stjórnvöld myndu aldrei leyfa sóttvarnalækni að stjórna aðgerðum í faraldri á borð við Covid-19 eins og gert hefur verið í Svíþjóð. Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Helgelands sjúkrahússins í Norður-Noregi og fyrrverandi forstjóri Landspítalans, segir að frá upphafi faraldursins, hafi ríkisstjórnin staðið í fararbroddi í Noregi og tekið allar meiriháttar ákvarðanir um aðgerðir.

„Það er til þess að sýna hver ber ábyrgð og hver hefur valdið,“ segir Hulda. „Það væri alveg óhugsandi hér í Noregi að það væru ekki stjórnmálamennirnir sem stæðu í eldlínunni.“

Hulda segir að enn sem komið er ríki víðtæk sátt um aðgerðir norskra stjórnvalda.

„Það hafa enn sem komið er ekki farið fram miklar umræður, en þegar öldurnar lægir fara menn að ræða hvort rétt hafi verið staðið að málum.“

Hulda segir að Norðmenn fari hægar í sakirnar en Íslendingar þegar kemur að því slaka á samkomubanni og öðrum höftum sem tengjast faraldrinum.

„Við erum ekki alveg eins fljót að opna og á Íslandi. Það er ekki fyrr en 15. júní sem hægt verður að hafa samkomur með allt að 200 manns og heilsuræktarstöðvarnar og sundlaugar verða ekki heldur opnaðar fyrr en í fyrsta lagi 15. júní,“ sagði Hulda Gunnlaugsdóttir í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV