
Neyðarstigi hefur verið aflétt
Þrjú staðfest smit hafa greinst hér á landi undanfarna viku. Nýjar tölur verða birtar klukkan 13 á covid.is
Sundlaugar voru opnaðar á ný á mánudaginn var og er hámarksfjöldi á hverjum sundstað helmingur af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi hverrar laugar. Þórólfur Guðnason sagði á upplýsingafundi almannavarna á miðvikudag að árangur verði að sjást af breyttum fjöldatakmörkunum hvort og þá hversu mikið verði slakað á aðgerðum næst.
Áfram verði gerðar sömu kröfur um sótthreinsun og þrif almenningsrýmum og ný skilgreining sett fram á tveggja metra reglunni í ljósi þess að meiri fjöldi má nú koma saman.
Vnveitingastöðum, skemmtistöðum og spilasölum verður nú leyft að hafa opið til um klukkan ellefu á kvöldin. Íþróttastarf verður leyft með 200 manna hámarksfjölda fyrir fullorðna.
Þórólfur segir að árangur verði að sjást af breyttum fjöldatakmörkunum hvort og þá hversu mikið verði slakað á aðgerðum næst. Áfram verða tekin sýni hjá fólki með einkenni. Almannavarnir verði áfram í viðbragðsstöðu og greiningarteymi tilbúið. Embætti sóttvarnalæknis sé alltaf í startholunum, vinna áhættumat og tilbúið til að grípa til aðgerða.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundi á miðvikudag að neyðarstigi yrði aflétt í dag og reglulegum upplýsingafundum hætt. Komi upp hópsýking verði aftur farið á neyðarstig, þó með öðrum hætti en hefur verið að undanförnu. Neyðarstigi yrði þá beitt staðbundið, jafnvel í einstaka sveitarfélagi en ekki í landinu öllu. „Til þess að fara aftur upp á neyðarstig á öllu landinu þá þyrftum við að vera með töluverða samfélagslega útbreiðslu í smitunum. Við höfum ekki sett neina tölu á bakvið það. Það verður ávallt mat okkar sóttvarnarlæknis hvernig það verður unnið.“
Verkefnahópur ríkisstjórnarinnar vinnur að útfærslu leiða til að opna landið frekar fyrir ferðamönnum með ákveðnum skilyrðum. Hópurinn á að skila inn tillögum í dag og í framhaldi sendir Þórólfur minnisblað til ráðherra um tilslakanir á landamærum.