Neyðarástandi aflétt í Japan

25.05.2020 - 11:52
A public screen shows Japanese Prime Minister Shinzo Abe speaking at a press conference Monday, May 25, 2020, in Tokyo. Abe lifted a coronavirus state of emergency in Tokyo and four other remaining areas on Monday, ending the restrictions nationwide as businesses begin to reopen. (AP Photo/Eugene Hoshiko)
 Mynd: AP
Neyðarástandi vegna kórónuveirufaraldursins í Japan var aflétt í dag. Varað er við því að smit kunni að aukast að nýju verði ekki farið að öllu með gát. Shinzo Abe forsætisráðherra tilkynnti á fréttamannafundi sem var sjónvarpað um allt land að svo góður árangur hefði náðst í baráttunni við veiruna að óhætt væri að aflétta neyðarástandinu.

Einungis 16.581 veirusmit hefur greinst í Japan til þessa og sjúkdómurinn hefur dregið 830 til dauða. Þetta er mun minna en víða annars staðar, svo sem í Bandaríkjunum, Brasilíu, Rússlandi og nokkrum Evrópuríkjum sem hafa orðið illa úti af völdum farsóttarinnar.

Á það hefur verið bent að minna hefur verið skimað fyrir veirunni í Japan en í öðrum helstu iðnríkjum heims. Heilbrigðisyfirvöld segja að það hafi aldrei verið hluti af japönsku leiðinni í baráttunni við veiruna að greina sem flesta. Sú leið virðist hafa skilað svo góðum árangri að neyðarástandi var aflýst síðustu daga víðs vegar um landið og nú síðast höfuðborginni Tókýó og fjórum héruðum til viðbótar, sjö vikum eftir að því var lýst yfir.

Shinzo Abe minnti á það á fréttamannafundinum að enn yrði að fara að öllu með gát. Fólk ætti að forðast fjölmenni og halda sig í hæfilegri fjarlægð hvert frá öðru.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi