Hundrað talibönum sleppt úr fangelsi

25.05.2020 - 13:36
epa08440521 Muslims greet each other as they attend a morning prayer session to celebrate Eid al-Fitr, which marks the end of Ramadan, in Jalalabad, Afghanistan 24 May 2020. Muslims around the world are celebrating Eid al-Fitr, the three day festival marking the end of the Muslim holy fasting month of Ramadan. Eid al-Fitr is one of the two major holidays in Islam.  EPA-EFE/GHULAMULLAH HABIBI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirvöld í Afganistan slepptu í dag eitt hundrað talibönum úr fangelsi að launum fyrir að talibanar hafa lýst yfir þriggja sólarhringa vopnahléi í tilefni af upphafi Eid al-Fitr hátíðarinnar. Þetta er einungis í annað sinn í tæplega nítján ára ófriði milli talibana og stjórnvalda sem þeir fyrrnefndu fallast á vopnahlé. Það hefur verið virt síðustu tvo sólarhringa.

Stjórnvöld í Kabúl lýsa sig reiðubúin að sleppa allt að tvö þúsund talibönum úr haldi verði vopnahléið framlengt. Ashraf Ghani forseti segir að ríkisstjórn sín sé reiðubúin að hefja viðræður við talibana í þeirri von að varanlegur friður komist á í landinu.

Talibanar réðust fyrir nokkrum dögum á borgina Kunduz í norðurhluta Afganistans. Þar ríkir friður og ró þessa dagana og borgarbúar halda upp á Eid hátíðina. Viðmælandi AFP fréttastofunnar segir að umskiptin séu alger. Fyrir fáeinum dögum hafi borgarbúar verið skelfingu lostnir. Nú líði þeim eins og að bardögum sé lokið og þeir njóti þess að halda Eid hátíðlega.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi