Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hefði ekki trúað að til væri veira sem þessi

Mynd með færslu
Erna Magnúsdóttir. Hún segir veiruna, sem veldur COVID-19, slíkum eiginleikum gædda að ekki hefði verið hægt að búa hana til. Mynd:
Vísindamenn geta breytt þekktum veirum. Þeir geta aftur á móti ekki búið til veiru frá grunni. Þetta segir Erna Magnúsdóttir, dósent í lífeinda- og líffærafræði við læknadeild HÍ. Erna segir að Novel coronavirus 2019-nCoV, kórónaveiran sem veldur COVID-19, sé það einstök að ekki hefði verið hægt að búa hana til úr annarri veiru á rannsóknarstofu. Hún segir að fyrir ári síðan hefði hún vart getað trúað því að til væri veira með þessa eiginleika.

Á Vísindavef HÍ svarar Erna spurningunni „Geta vísindamenn búið til veirur“ og þar segir meðal annars að vísindamenn fari ekki inn á tilraunastofu með tæki sín, tól og efni og komi þaðan út með áður óþekktar veiruagnir, heldur geta þeir breytt þekktum veirum með erfðatæknilegum aðferðum og meðal annars nýtt þær til að flytja erfðaefni. „Þannig er hægt að „búa til“ eða endurhanna veirur“, segir í svari Ernu.

„Þetta hefði ekki verið hægt að búa til á tilraunastofu“

Hún segir að einkenni og uppbygging veirunnar hafi komið vísindamönnum mjög á óvart.  „Uppbyggingin í yfirborðspróteini hennar, sem binst við frumur líkamans til að komast inn í þær, hefur komið vísindamönnum á óvart,“ segir Erna. „Hefði mér verið sagt frá þessari veiruuppbyggingu fyrir ári eða svo hefði ég varla trúað því að veira gæti verið samsett á þennan hátt. Þetta er svo óvenjulegt; að yfirborðsprótein hagi sér eins og það gerir á þessari veiru. Þetta hefði ekki verið hægt að búa til á tilraunastofu.“

Eins og erfðafræðilegt Legó

Í svari Ernu á Vísindavef HÍ segir að veirur hafi þann hæfileika að yfirtaka starfsemi þeirra fruma sem þær sýkja og notfæra sér þannig erfðamengi þeirra í eigin þágu. Þess vegna þarf erfðamengi veiranna sjálfra aðeins að skrá fyrir örfáum genum sem ekki finnast í hýsilfrumunum. „Erfðamengi veira geta því verið mjög lítil. Sem dæmi inniheldur inflúensuveira um 15 þúsund basa, en erfðamengi mannsins rúmlega þrjá milljarða basa. Stærðarmunurinn er því meira en tvöhundruðþúsundfaldur,“ segir í svari Ernu. 

„Vegna smæðar erfðamengja veira er tiltölulega einfalt að meðhöndla þau með erfðatæknilegum aðferðum. Vísindamenn geta því fjarlægt gen úr þekktum veirum og sett önnur í staðinn og þannig breytt eiginleikum veiranna. Í raun má líkja þessu við eins konar erfðafræðilegt legó, þar sem veirugenum er skipt út fyrir önnur gen,“ segir í svarinu.

Mikill fjöldi stökkbreytinga 

Annað sem Erna segir að leiði líkum að því að veiran hafi ekki verið búin til er sá fjöldi stökkbreytinga sem verða á henni. „Það er vissulega hægt að búa til stökkbreytingar á rannsóknarstofu, en þá væri viðkomandi vísindamaður að leggja í rosalega mikla vinnu án þess að fá nokkuð út úr henni því að þær stökkbreytingar, sem hafa orðið á veirunni eftir að hún fór að berast út, virðast ekki breyta virkni hennar að ráði.“

Spurð hvort verið sé að gera rannsóknir á Novel coronavirus 2019-nCoV hér á landi segist Erna ekki vita til þess að verið sé að gera aðrar rannsóknir en faraldsfræðilegar. „Til að gera rannsóknir á veiru sem þessari þarf mikinn viðbúnað og aðstöðu sem er ekki til hér á landi.“

 

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir