Flygill sem stóð úti á túni kominn í ráðherrabústaðinn

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Flygill sem stóð úti á túni kominn í ráðherrabústaðinn

25.05.2020 - 10:15

Höfundar

„Það fer ekkert framhjá þér þegar þú sérð hann að þetta er gamalt hljóðfæri, en hann lítur fallega út og hefur þennan gamla virðuleika og glæsileika,“ segir Sindri Már Heimisson hljóðfærasmiður sem undanfarna mánuði hefur verið að gera upp sögufrægan flygil.

Í Landanum í gær var rifjuð upp saga þessa flygils sem er nýbúið að gera upp og stendur nú í stássstofunni í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. 

Mikið var um dýrðir við komu konungs og spilað var á flygilinn í Alþingishúsinu. Auk þess voru sungin kvæði eftir fremstu skáld þjóðarinnar, ort í tilefni heimsóknarinnar.

Stóð úti á túni veturlangt

Í grein í DV frá árinu 2000, rekur Páll Ásgeir Ásgeirsson harmsögu flygilsins. Eftir athöfnina í Alþingishúsinu fréttist lítið af honum í nokkur ár, en svo dúkkaði hann upp í Stykkishólmi, þá í eigu Sæmundar Halldórssonar, athafnamanns.  En endar svo úti á túni, á uppboði.  Enginn bauð í gripinn og stóð hann því á túninu veturlangt. Þá kemur til sögunnar Jónas Jónsson frá Hriflu. Honum þykir tilvalið að fá konungsflygilinn til menningarauka í Héraðsskólann á Laugarvatni.  En á Laugarvatni átti flygillinn dapra ævi.

Ótrúlegt að hann sé í heilu lagi

„Það hefur nú eitt og annað greinilega komið fyrir, það hefur brotnað í honum harpan til dæmis ef maður tekur verstu tröllasögurnar af honum þá er ótrúlegt að hann sé í heilu lagi en þetta er mjög sterkbyggt hljóðfæri,“ segir Sindri. 

Sumir segja jafnvel að skólapiltar hafi migið í hann sér til skemmtunar og að harpan hafi verið notuð til að slóðadraga tún. Eftir bruna í skólahúsinu 1947 þykir konungsgersemin lítils virði og er flygillinn þá fluttur austur á land til viðgerðar. Viðgerðin eystra gekk ekki sem skyldi og að endingu var flygillinn sendur til Pálmars Ísólfssonar píanósmiðs á Óðinsgötu. Árið 1977 eignaðist Davíð Pitt hljóðfærið og var það í eigu fjölskyldu hans þar til nú.

Kominn aftur heim 

Er ekki mikil áskorun að ná þessu eins og þetta var?

„Jú, maður kannski nær því aldrei 100% en samt liturinn á hörpunni er mjög áþekkur því sem var en veit ekki hvernig hann var upprunalega, líklega búið að eiga við hann áður, liturinn á hljómbotninum dekkri,“ segir Sindri.

Nú er flygillinn kominn aftur í eigu þjóðarinnar því Þjóðminjasafnið lagði til við forsætisráðuneytið að það keypti flygilinn og varðveitti hann í Ráðherrabústaðnum. Því má segja að þessi kjörgripur sé loksins kominn aftur heim í hendur upprunalegs eiganda.