„Erfitt og strembið“ að loka staðnum svo lengi

25.05.2020 - 20:03
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Vertar öldurhúsa eru sammála um að samkomubannið hefði ekki mátt vara mikið lengur. Það var enginn bilbugur á ræktargestum í morgun, þrátt fyrir nokkur aukakíló eftir lokanirnar.

Flestir voru óþreyjufullir að opna aftur eftir að hafa skellt í lás þegar samkomubann tók gildi, fyrir um tveimur og hálfum mánuði.  Hvernig er tilfinningin að opna eftir svona langa bið? „Bara eins og að fæðast aftur. Þetta er búið að vera smá erfitt tímabil,“ segir George Leite de Oliveira Santos eigandi Kalda bars.

Allir tryggi tvo metra fyrir þá sem vilja

Bannið átti við skemmtistaði og bari sem voru ekki með veitingaleyfi. Aðrir máttu hafa opið fyrir mest fimmtíu manns. Nú mega fjórfalt fleiri koma saman - eða 200 og tveggja metra reglan er valkvæð. Skemmti- og veitingastaðir, leikhús og bíósalir eiga að taka frá pláss fyrir þá sem vilja halda fjarlægð.

Hvernig ætlið þið að tryggja tveggja metra regluna fyrir þá sem vilja? „Það er nóg pláss. Við erum á tveimur hæðum. Fólk fær næði ef það vill það,“ segir Arnar Holm Sigmundsson, eigandi Veðurbarsins

„Við erum með pláss út í horni. Ég ætla að nýta það sem tveggja metra svæði. Verður það ekkert erfitt? „Jú, en það er bara það sem við gerum. Við erum með Íslendinga í erfiðri stöðu,“ segir George Leite.

Flestir hafa nýtt tímann til að dytta að. En það hefur tekið á að hafa lokað í svo langan tíma. „Auðvitað hefur þetta haft áhrif á reksturinn. En við lifum þetta af. Þetta er auðvitað búið að vera mjög erfitt og strembið og hefði ekki mátt vera mikið lengur,“ segir Arnar jafnframt.

Spritta ræktartækin fyrir og eftir notkun

Það eru ekki bara barir sem opna í dag. Fólk gat mætt í ræktina eftir um tveggja mánaða bið. „Þetta er búið að vera langur tími, það er mjög gott að komast aftur þó að maður hafi reddað sér heima. Þá er gott að komast aftur í almennileg tæki. Það verður að spritta allt sem maður tekur í. Sætið og allt,“ segir  Sólveig María Ólafsdóttir.

„Ég passa mig að spritta mig alltaf þegar ég fer út og snerti ekki andlit,“ segir Kjartan Sævarsson.

Opnun líkamsræktarstöðva er háð sömu takmörkunum og opnun sundlauga: Gestir mega ekki vera fleiri en sem nemur helmingi þess fjölda sem gert er ráð fyrir í starfsleyfi. „Ég held að fólk sé bara búið að halda sér ágætlega. Flestir sem eru búnir að hitta mig í morgun eru í ágætis stuði sko,“ segir Sigurjón Þorkell Sigurjónsson, einkaþjálfari í World Class.

Finnur þú mun á þér núna? „Já já, maður er alveg dottinn niður um smá sko. En þetta er fljótt að koma,“ segir Sævar jafnframt.

„Já, algjörlega. Nokkur aukakíló og líka bara andlegi þátturinn, að komast að hreyfa sig,“ segir Íris Ósk Valþórsdóttir.

Nú er tveggja metra reglan valkvæð, ert þú að finna fyrir því hjá þínum kúnnum að þeir vilji halda sig í tveggja metra fjarlægð? „Ekki það sem er komið er af degi. Ég veit það er að koma fólk til mín seinnipartinn og við virðum það að sjálfsögðu og pössum upp á fjarlægðina hérna inni á staðnum. Það er vel hægt. Við heyrum vel á milli,“ segir Sigurjón Þorkell jafnframt.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi