Ágreiningur um veiruviðbrögð í Þýskalandi

25.05.2020 - 18:00
epa08313898 German Chancellor Angela Merkel speaks during a press statement at the chancellery in Berlin, Germany, 22 March 2020. German Chancellor Angela Merkel informed after a telephone conference that took place with the Heads of German Regional States on the spread of the coronavirus SARS-CoV-2 which causes the COVID-19 disease. Media reports state, that  the assembly of more than two persons if not family or household members are generally prohibited throughout Germany.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ágreiningur er kominn upp meðal stjórnvalda í Þýskalandi um hvort ástæða sé til að framlengja ýmsar varúðarráðstafanir gegn kórónuveirunni fram í júlí. Stjórnendur tveggja sambandsríkja í austurhluta landsins vilja aflétta takmörkunum að mestu.

Samkvæmt drögum sem ríkisstjórn Angelu Merkel hefur samið er áformað að framlengja ýmsar ráðstafanir til fimmta júlí til að takmarka útbreiðslu veirunnar, þar á meðal að fólk skuli ekki koma nær hvert öðru en einn og hálfan metra. Jafnframt stendur til að skikka fólk til að vera með andlitsgrímur á opinberum stöðum, svo sem í matvöruverslunum og í almenningsfarartækjum. Einnig verði allt að tíu manns úr tveimur fjölskyldum leyft að hittast innanhúss frá 6. júní.

Þessi drög verða lögð fyrir stjórnvöld í þýsku sambandsríkjunum. Óvíst er að samstaða náist um þau, þar sem í tveimur ríkjum er áformað að afnema ráðstafanirnar að mestu leyti 6. júní. Þetta eru ríkin Thüringen og Saxland í austurhluta Þýskalands. Þar hefur tiltölulega lítið verið um veirusmit. Stjórnvöld þar hafa lýst því yfir að þau vilji opna allt, með fáeinum undantekningum, en auðvitað verði haldið áfram að fylgjast með útbreiðslu veirunnar.

Talsmaður Angelu Merkel sagði í dag að allar ákvarðanir sambandsstjórnarinnar væru bindandi. Kanslarinn hafi til þessa reynt að fara bil beggja og það hefði skilað góðum árangri í baráttu við veiruna.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi