Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

75 milljónir í að efla félagsstarf eldri borgara

Eldri borgarar í Árborg.
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að verja 75 milljónum króna í átaksverkefni til að efla félagsstarf fullorðinna í sumar. Aðgerðirnar eru hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19.

Öll sveitarfélög landsins hafa fengið bréf þar sem þau eru hvött til að efla enn frekar félagsstarf fullorðinna í sumar með því að sækja um styrk til að auka starfsemi og þjónustu við þennan hóp sumarið 2020. Sveitarfélögin geta óskað eftir styrkjum á síðunni www.island.is en hvert og eitt sveitarfélag mun geta sótt um 1.600 krónur fyrir hvern íbúa sem er 67 ára eða eldri.

„Það er staðreynd að viðkvæmir hópar verða fyrir hvað mestum áhrifum af Covid-19 faraldrinum og margir hafa upplifað mikla félagslega einangrun í faraldrinum. Það er mikilvægt að sporna gegn því með því að bjóða upp á frístundaiðkun, geðrækt og hreyfingu meðal annars og ég hvet sveitarfélögin til að efla félagsstarf fullorðinna enn frekar í sumar,“ er haft eftir Ásmundi Einari á vef stjórnarráðsins.