Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Þú feikar ekki einlægni“

Mynd: Myndband / BBC

„Þú feikar ekki einlægni“

24.05.2020 - 12:43

Höfundar

Þann 18. maí voru fjörutíu ár síðan breski tónlistarmaðurinn Ian Curtis andaðist sviplega, tuttugu og þriggja ára að aldri, á heimili sínu í Macclesfield á Englandi.

Ian Curtis var forsöngvari í hljómsveitinni Joy Division, sem sendi aðeins frá sér tvær hljóðversplötur á sínum ferli, en hafði eigi að síður gríðarleg áhrif. Seinni plata sveitarinnar, Closer, kom út sléttum tveimur mánuðum eftir andlát Curtis og er einn af hátindum þeirrar tónlistarstefnu sem kennd er við póst-pönk.

Hilmar Örn Hilmarsson, tónlistarmaður og allsherjargoði, var einn af þeim ungu tónlistarmönnum sem heilluðust af Ian Curtis og hljómsveitinni Joy Division á sínum tíma. Hann fékk tónlistina beint í æð og hún hafði mikil áhrif á hann og tónlistarfólk í kringum hann, ekki síst hljómsveitina Þey. Hilmar segir að Ian Curtis hafi haft algera sérstöðu á sínum tíma, bæði rödd hans og textagerð. „Hann er maður sem kemur upp á þessum pönk-tíma, þar sem allir voru ofsalega reiðir, allir textar voru svakalega reiðir, hlutir voru gargaðir, og allt í einu kemur þessi ofboðslega fallega baritón-rödd, vel syngjandi og tónandi, og fer jafnvel niður í bassó-prófúndó til áhersluauka þegar við á.“

Hjartað og sálin

Ian Curtis fæddist þann 15. júlí árið 1956 í Stretford í Lancashire á Englandi. Daginn eftir andlátið hafði hljómsveit hans Joy Division ætlað að fara í sinn fyrsta Ameríkutúr, af honum varð eðli málsins samkvæmt ekki. Sléttum tveimur mánuðum síðar, þann 18. júlí árið 1980, kom út seinni hljóðversplata hljómsveitarinnar, Closer. Með henni fylgdi hljómsveitin eftir fyrri plötunni, Unknown Pleasures sem kom út þann 15. júní árið 1979. Unknown Pleasures var góð, en á Closer var þetta allt komið heim og saman. Depurðin og fegurðin, upphafið og endalokin. Hitinn og kuldinn, hjartað og sálin, allt í skugga hins ótímabæra og ömurlega andláts.

Nú fjörutíu árum síðar er eins og tíminn hafi numið staðar. Fyrst þann 18. maí árið 1980, þegar Ian Curtis svipti sig lífi, síðan þann 18. júlí, þegar hljómplatan Closer kom út. Albúmið eins og boðskort í jarðarför, skartar mynd af grafreit Appiani-fjölskyldunnar í Minningarkirkjugarðinum í Staglieno í Genúa á Ítaliu, einum stærsta kirkjugarði í heimi, og frægur er fyrir sína tignarlegu minnisvarða. Og já, dauðinn er yfir, og allt um kring. Curtis syngur á plötunni með einkar áhrifamiklum hætti um tíma og eilífð, depurð og örvæntingu, og ávarpar heila kynslóð í hinu tignarlega lokalagi plötunnar, Decades. „Svo er hann að syngja um melankolíu og eitthvað sem manni fannst vera einhver kjarni í,“ segir Hilmar Örn. „Þetta er maður sem er ekki að koma úr einhverjum bakgrunni þar sem ekkert skiptir máli heldur finnst manni vera þarna tilvistarlegar spurningar og maður fer að skoða hann og sér að þetta er maður sem er ekki að lesa Nietzsche í pocket-bók eins og Jim Morrison, hann er að lesa Hermann Hesse, maður finnur litlar tilvísanir í alls konar hluti. Og hann er að lesa William Burroughs, þannig að þetta er djúpt hugsandi maður, maður finnur það á öllum þessum textum.“

Við höfum engan boðskap

Hljómsveitin Joy Division var stofnuð í Salford á Englandi árið 1976, skipuð þeim Ian Curtis, Bernard Sumner, Peter Hook og Stephen Morris. Í fyrstu var hljómsveitin undir miklum pönkáhrifum en þróaði síðan sinn eigin stíl, sinn eigin hljóðheim, sem gerði hana að áhrifamiklum frumkvöðlum í póst-pönkinu svokallaða. Joy Division brúaði bilið á milli pönks og nýbylgju, og varð einhver áhrifamesta rokkhljómsveit tímabilsins. Hljómsveitin kallaði sig í upphafi Warsaw, eftir lagi númer eitt á hlið númer tvö á plötunni Low með David Bowie, frá árinu 1977, en hélt sitt fyrsta gigg undir heitinu Joy Division þann 25. janúar árið 1978 á Pip's Disco klúbbnum í Manchester. Tónlistarlega var hljómsveitin undir áhrifum já frá Bowie, Kraftwerk, Roxy Music, Lou Reed og Neu!, svo eitthvað sé nefnt, textar undir áhrifum frá Friedrich Nietzsche, Fjodor Dostójevskí, Franz Kafka, Hermann Hesse, J. G. Ballard, og T. S. Eliot, þannig mætti áfram telja. Ian Curtis samdi textana, þeir Sumner og Hook sömdu tónlistina. „Við höfum engan boðskap,“ sagði Curtis. „Textarnir eru galopnir fyrir túlkun, þið getið lesið í þá nákvæmlega það sem þig viljið.“

Hernaðaðarleyndarmál í leðurtösku 

Hilmar Örn Hilmarsson segir að tónlist Joy Division hafi haft stórkostleg áhrif á hljómsveitina Þey, eina merkustu hljómsveit íslenskrar rokksögu. „Guðni Rúnar Agnarsson spilar fyrir okkur Unknown Pleasures, það er svona móment þar sem maður er lostinn eldingu, þetta var svona ,,fyrir og eftir" móment. Allt í einu kemur einhver hljóðheimur sem maður hafði ekki heyrt áður og síðan fer maður að eltast við þetta, af hverju hljómar þetta svona? og eitthvað slíkt.“ Með Joy Divison kom nýr hljóðheimur, og ný tækni sem Þeysarar lögðu sig eftir. „Þarna voru fyrstu stafrænu effektatækin að koma fram. Upptökustjórinn, Martin Hennett, hafði náð í fyrsta ams-digital-delay tækið sem var smíðað í Bretlandi, og skapaði áferð sem hafði aldrei heyrst. Hann prósessaraði trommurnar öðruvísi en hafði áður þekkst, röddina líka. Og hafði vit á því að hafa stóra miðju utan um rödd Ians, þannig að hann naut sín, röddinni var ekki sökkt í hljóðfæraleikinn þótt hann væri ansi hávær stundum.“ 

Einn liðsmanna Þeys var Guðlaugur Kristinn Óttarsson sem var mikill áhugamaður um stafræna tækni, lagði stund á rafmagnsverkfræði, og fylgdist mjög vel með því sem var að gerast. „Við urðum okkur út um stafrænt delay frá Bandaríkjunum, Lexicon Prime Time, sem varð síðar einkennishljóð Þeysara, og hernaðarleyndarmál. Við bárum þá græju um í leðurtösku og hleyptum engum öðrum í hana. Meðvitað eða ómeðvitað vorum við að eltast við þennan hljóðheim sem við höfðum heyrt.“

Sorglegt símtal um nótt

Forsöngvarinn Ian Curtis þjáðist af þunglyndi og flogaveiki, og átti það til að fá köst á sviðinu, allt færðist þetta mjög í aukana eftir því sem á leið, flogin urðu sífellt verri og verri. Við bættust erfiðleikar í hjónabandi. Hann reyndi að svipta sig lífi í aprílbyrjun árið 1980 en það var að morgni dags, 18. maí 1980, sem kona hans Deborah kom að honum látnum í eldhúsinu á heimili þeirra í Macclesfield, Curtis hafði hengt sig eftir að hafa varið nóttinni í að horfa á kvikmyndina Stroszek eftir þýska kvikmyndaleikstjórann Werner Herzog. Hilmar Örn Hilmarsson starfaði um tíma með ensku hljómsveitinni Psychic TV. Þar var forsprakki Genesis P-Orridge sem kynntist Ian Curtis vel. „Hann sagði mér þá sögu að Curtis hefði gjarnan hringt í sig á nóttunni, þeir höfðu fundið einhvern samhljóm sín á milli. Curtis hafði hringt nóttina sem hann svipti sig lífi og sungið lag sem heitir Weeping sem Throbbing Gristle gerði, kom út einu eða tveimur árum áður, lag sem fjallar einmitt um sjálfsmorð. Hann hafði varðveitt þetta símtal gegnum símsvarann og ég fékk að heyra þessa horfnu rödd á kassettu syngja þetta tragíska lag, og það var dálítið erfitt.“

Ekkert sem kemst nálægt þessu

Hljómplatan Closer kom út eins og áður segir tveimur áratugum eftir andlát Curtis. Og hún er nú af mörgum talin einn af hápunktum þess tímabils í tónlistarsögunni sem kennt er við post-pönk. Hún hefst á því að okkur er boðið á sýningu á grimmdarverkum, taktu í hönd mína og ég mun sýna þér hvað var, og hvað mun verða, þetta er leiðin, gakktu í bæinn, syngur Ian Curtis og ávarpar agndofa söfnuð sinn með sinni spámannlegu rödd. „Allt í einu ertu kominn með mann sem getur krúnað en er samt í nútímanum," segir Hilmar Örn Hilmarsson. Endalokin virðast sumpart yfirvofandi, verð að finna örlög mín, áður en það verður of seint, syngur Curtis í laginu Twenty Four Hours, og í laginu Isolation, einangrun, syngur hann um blindu sem nálgast fullkomnun, en meiðir eins og allt annað: mamma, ég reyndi trúðu mér, ég geri mitt besta, ég skammast mín fyrir það sem ég hef farið í gegnum, ég skammast mín fyrir það sem ég er.

„Hún er náttúrlega ótrúlegur minnisvarði,“ segir Hilmar Örn um Closer, „og maður gat raunverulega ekki hlustað á hana án þess að fá tár í augun því þessi maður fór allt of fljótt. Maður þakkar bara fyrir þennan innblástur og þessa dásamlegu list sem hann skilaði frá sér.“ Platan eldist einkar vel að mati Hilmars og betur en margt annað frá þessum tíma. „Ef þú ert að skoða það sem er á þessum tíma, ég finn ekkert sem kemst nálægt því.“ Hann hlustar enn á Closer. „Og það sem meira er að krakkar sextán, sautján ára gamlir eru að hlusta á þetta þannig að þetta fer þvert yfir kynslóðir og tíma.“

Tónlist Joy Division lifir því góðu lífi enn í dag, fjörutíu árum eftir andlát Ians Curtis, og hún mun lifa, ekki síst vegna þeirrar einlægni sem Curtis bjó yfir og kom til skila með rödd sinni og textum. „Þú feikar ekki einlægni, það er eitthvað sem þú kemst aldrei upp með. Og þetta kemur svo gjörsamlega úr hyldýpi sálarinnar, þegar maður skoðar til dæmis bara textana eftir á þá er svo mikil spásögn í þessu öllu saman um hans lífshlaup.“ Þess má geta að þann 17. júlí næstkomandi kemur út á vínyl sérstök viðhafnarútgáfa plötunnar Closer í tilefni af fjörutíu ára afmæli plötunnar, með aukalögunum Love Will Tear Us Apart, Transmission og Atmosphere

Rætt var við Hilmar Örn Hilmarsson í Víðsjá.

Tengdar fréttir

Tónlist

Glíma við Joy Division í íslenskri náttúru

Tónlist

Fagna arfleifð Joy Division og New Order