Starmer segir Boris Johnson hafa fallið á prófinu

24.05.2020 - 21:03
epa08434155 A handout photo made available by the UK Parliament of Britain's Labour leader Keir Starmer speaking during the Prime Ministers Questions in the House of Commons Chamber in London, Britain, 20 May 2020.  EPA-EFE/JESSICA TAYLOR / UK PARLIAMENT HANDOUT MANDATORY CREDIT: UK PARLIAMENT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - UK PARLIAMENT
Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafa fallið á prófinu á stöðufundi stjórnvalda í dag. Johnson kom þar Dominic Cummings, aðalráðgjafa sínum, til varnar. „Það er móðgun við þá fórn sem breskur almenningur hefur fært að Boris Johnson skuli ekki ætla að gera neitt í máli Cummings.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í röð tísta sem Starmer birti á Twitter-síðu sinni. 

Hann segir að breskum almenningi fyrirgefist að halda að ein regla gildi fyrir hann en önnur fyrir nánustu ráðgjafa forsætisráðherrans. „Viðbrögð forsætisráðherrans grafa undan þeim skilaboðum sem hann hefur sent almenningi á þessum mikilvægu tímum.“

Mál Dominic Cummings hefur verið allsráðandi í bresku pressunni eftir Guardian og Mirror greindu frá því að hann hefði ferðast rúma 400 kílómetra frá Lundúnum til Durham með eiginkonu sinni og barni. Fjölskylda Cummings býr í Durham. Þau hjónin voru með einkenni sem svipuðu til COVID-19 og Cummings hefur sagt að hann hafi viljað að einhver gæti hugsað um barnið ef hann og kona hans yrðu alvarleg veik.

Fram hefur komið í breskum miðlum að systir Cummings hafi verslað fyrir þau en skilið vörurnar eftir fyrir utan. Þá greindu bresku blöðin frá frásögnum tveggja vitna í gærkvöld sem sögðu að Cummings hefði ekki haldið kyrru fyrir eins og hann héldi fram. Til hans hefði sést á vinsælum ferðamannastað og svo aftur í Durham eftir að hann var myndaður í Lundúnum.

Þrýst hefur verið á Boris Johnson að láta Cummings fara. Forsætisráðherrann sagði á stöðufundi stjórnvalda síðdegis í dag að hann hefði rætt við ráðgjafa sinn augliti til auglitis. Það væri mat hans að Cummings hefði fylgt innsæi sínu sem faðir og hefði hegðað sér í samræmi við þær reglur sem settar voru vegna kórónuveirufaraldursins. Sumt í fréttaflutningi fjölmiðla væri ekki satt án þess þó að nefna sérstaklega hvað það væri.

Óhætt er að segja að stuðningsyfirlýsing Johnson hafi vakið hörð viðbrögð víða.  Læknirinn Dominic Pimenta birti meðal annars mynd af sér á leið í vinnu á COVID-gjörgæsludeild. „Ég hef ekki séð foreldra mína síðan í janúar. Cummings hrækti á okkur öll. Ef hann hættir ekki, þá hætti ég.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi