Sjö þingmenn Íhaldsflokksins vilja Cummings burt

24.05.2020 - 10:31
epa08440776 British Prime Minister Boris Johnson's Special Advisor, Dominic Cummings, departs his home in London, Britain, 24 May, 2020. Calls for Cummings' resignation have increased since news broke that Cummings breached lockdown regulations while showing symptoms for Covid-19. Countries around the world are taking increased measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/ANDY RAIN
Blaðamenn sátu fyrir Cummings í morgun.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Sjö þingmenn Íhaldsflokksins breska, flokks forsætisráðherrans, hafa kallað eftir afsögn Dominic Cummings, aðalráðgjafa Borisar Johnson vegna þess að hann hélt sig ekki heima eftir að hafa fengið einkenni COVID-19.

Stjórnvöld í Bretlandi brýndu fyrir fólki á meðan faraldurinn var í hámarki að ferðast ekki nema brýna nauðsyn beri til. Cummings fór í ferðalag með eiginkonu sinni og ungu barni frá London til Durham í bryjun apríl, 400 kílómetra, þrátt fyrir tilmæli stjórnvalda sem var ætlað að hemja útbreiðslu veirunnar. 

Þingmennirnir sem krefjast afsagnar eru Steve Baker, Simon Hoare, Damian Collins, Sir Roger Gale, Sir Peter Bone, Caroline Nokes og Craig Whittaker. Þá greinir Guardian frá því að þingmaðurinn William Wragg hafi birt Twitter-færslu Baker þar sem hann kalli eftir afsögn og því líklegt að hann sé sama sinnis.

Breska ríkisútvarpið, BBC, greindi frá því í gær að Cummings-hjónin hafi farið til foreldra hans þannig að þau gætu hugsað um börnin á meðan hjónin jöfnuðu sig af veikindunum.

Fram kom í tilkynningu forsætisráðuneytisins í gær að Cummings hefði ekki brotið reglur með ferðalaginu, heldur hafi hann verið að hugsa um hag barnsins. Hjónin hefðu verið með einkenni COVID-19 og því viljað tryggja að einhver gæti hugsað um barnið ef þau yrðu alvarlega veik. Tvö vitni hafa aftur á móti sagt að þau hafi séð Cummings utandyra, meðal annars á vinsælum ferðamannastað við Durham. 

Verkamannaflokkurinn hefur einnig óskað eftir afsögn ráðgjafans og krafist þess að lögregluyfirvöld rannsaki hvort ásakanirnar séu sannar, að því er Independent greinir frá.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi