Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Play skoðar að hefja flug í sumar

24.05.2020 - 12:29
Mynd: Kastljós / Kastljós
Forstjóri Play segir að félagið geti hafði áætlunarflug með nokkrurra daga eða vikna fyrirvara. Félagið hafi tryggt sér nokkrar Airbus-vélar. Til skoðunar sé að hefja áætlunarflug í sumar eða haust.

Hálft ár er síðan nokkrir fyrrum lykilstjórnendur hjá WOW air tilkynntu um stofnun nýs lággjaldaflugfélags Play. Til stóð að hefja áætlunarflug til Kaupmannahafnar, Lundúna, Parísar, Berlínar, Tenerife og Alicante í desember en það varð ekki úr.

Arnar Már Magnússon, forstjóri félagsins, segir að undirbúningur að því að hefja flugferðir gangi vel. Stefnt sé að því að fljúga alla daga vikunnar.

„Það er rosalega erfitt að segja nákvæmlega til um fyrsta flug eins og staðan er núna. En við erum með margar sviðsmyndir uppi þar sem við getum gripið inn í og hoppað í flug með mjög skömmum fyrirvara,“ segir Arnar.

Hversu skömmum?

„Það eru dagar, vikur sem við gætum þetta. En við erum eins og fram hefur komið, erum við meira að horfa nær haustinu í dag, varðandi áætlunarflug, en getum hoppað inn fyrr ef þörf er á,“ segir Arnar.

Jafnvel í júlí?

„Já,“ segir Arnar.

Eruð þið búin að tryggja ykkur einhverjar flugvélar?

„Já, Airbus 320 fjölskylduvélar,“ segir Arnar.

Margar svoleiðis?

„Við erum búin að tryggja okkur nokkrar en erum með aðgang og gott aðgengi að vélum í dag,“ segir Arnar.

Og það hefur ekki áhrif þó flug fari yfirleitt í gang, þið munið samt hafa þessar vélar eða hvað?

„Já. Það hefur ekki áhrif á framtíðaruppbyggingu Play,“ segir Arnar.

Hvað tekur hver svona vél marga farþega?

„Við erum með þær í 200 sætum,“ segir Arnar.

Hvað með flugáhafnir?

„Við höfum nú þegar tryggt okkur áhafnir fyrir upphafið en höfum aðgang að frábæru fyrrverandi WOW-starfsfólki sem er einmitt þjálfað á þessa flugvélategund,“ segir Arnar.

Hvað eru margir á launaskrá?

„Við erum 36 sem vinnum í Play í dag,“ segir Arnar.

Þannig að það er engin áhöfn inni í þeirri tölu?

„Það eru flugmenn inni í þeirri tölu,“ segir Arnar.

Hvernig er með eldsneytissamninga, kaup á því?

„Við höfum ekki gengið frá neinum eldsneytissamningi eins og staða er í dag. Það er auðsótt þegar að því kemur enda kannski ekki tímabært akkúrat núna,“ segir Arnar.

Hversu stöndugt er félagið, hversu mikið fjármagn er komið?

„Það er nægilegt fjármagn til fyrir rekstur Play. Það er sterkt eignarhald á félaginu í dag og Elías Skúli Skúlason fer fyrir hópi fjárfesta,“ segir Arnar.

Elías Skúli er einn eigenda flugþjónustufyrirtækisins Airport Associates. Fyrirtækið sagði upp hundrað þrjátíu og einum starfsmanni um síðustu mánaðamót og hefur gert athugasemd við að frumvarp fjármálaráðherra um aðstoð ríkisins við að greiða laun í uppsagnafresti nýtist fyrirtækinu ekki nægilega vel. Arnar segir að allir fjárfestarnir séu innlendir en vill ekki greina frá því hversu mikið fjármagnið er. Bæði Play og Airport Associates eru á lista yfir félög sem nýttu sér hlutabótaleiðina.

>>