Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Leigusali fær skaðabætur vegna kannabisræktunar

24.05.2020 - 21:52
Mynd með færslu
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar því ekki beint. Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ�
Kærunefnd húsamála telur að leigusali eigi rétt á skaðabótum frá leigjanda vegna skemmda sem urðu á íbúð vegna kannabisræktunar. Upp komst um ræktunina þegar íbúi á hæðinni fyrir neðan varð var við leka. Kærunefndin tók ekki afstöðu til þess hversu háar skaðabæturnar ættu að vera en leigusalinn vildi fá tæpar fjórar milljónir.

Í áliti kærunefndar kemur fram að íbúi hafi haft samband við leigusalann í október á síðasta ári. 

Kallaður var til starfsmaður tryggingafélags en leigjandinn sagðist vera búsettur á Spáni og vildi ekki að farið yrði inn í íbúðina fyrr en eftir tvo sólarhringa. Starfsmaður tryggingafélagsins áttaði sig þó fljótlega á því að ekki væri allt með felldu því grýlukerti voru hangandi niður úr gluggum íbúðarinnar. Var því kallaður til lásasmiður og lögregla.   

Í ljós kom að íbúðin var stórskemmd, hún var öll á floti og full af raka enda kom á daginn að þar höfðu verið ræktaðar kannabisplöntur.  Leigusalinn fékk ekki að koma inn í íbúðina á meðan rannsókn lögreglu stóð. 

Þegar henni lauk og leigusalinn fékk íbúðina sína aftur blasti við ófögur sjón. Opnir balar um öll gólf með vatni, tjöld með kannabisplöntum og vatn leitt frá tjöldum inn á bað með rörum. Gluggar voru rennandi blautir að innan og gluggakistur á floti. Mygla var um allt eldhús og öll herbergi full af raka og drullu. Allar innréttingar og skápar voru sömuleiðis bólgin af raka. 

Leigjandinn taldi sig þó ekki þurfa að borga fyrir allt tjónið. Ræktunin hefði jú ekki staðið nema í þrjá mánuði. Það eina sem hann taldi sig þurfa að bæta var sá hluti parketsins sem var undir kannabisplöntunum í stofu. Að halda því fram að kannabisræktun í þrjá mánuði gæti skemmt svona mikið væri úti í hött heldur mætti að mestu leyti rekja skemmdirnar til margra ára vanrækslu eftir fyrri eiganda íbúðarinnar.

Við rannsókn málsins kom í ljós að sonur leigjandans var ábyrgur fyrir kannabisræktuninni.

Kærunefndin telur að öll gögn bendi ótvírætt til þess að verulegar skemmdir hafi orðið á íbúðinni vegna kannabisræktunar sonarins. Meint vanræksla geti ekki skýrt umrætt tjón.  Nefndin telur sömuleiðis að ekki sé hægt að taka afstöðu til bótafjárhæðarinnar enda liggi ekki fyrir önnur gögn sem sýni nægilega fram á umfang tjónsins.  

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV