Fúkyrði og fátt um faraldur á fundi Brasilíustjórnar

24.05.2020 - 06:14
epa08432008 Brazilian President Jair Bolsonaro leaves the Palacio do Alvorada in Brasilia, Brazil, 19 May 2020. Brazil became the third country most affected by COVID-19 on Monday, after surpassing the United Kingdom in the number of cases, and the trend is that the numbers of infected and dead continue to grow exponentially until July, by which time awaits the peak of the incidence curve.  EPA-EFE/Joedson Alves
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Umhverfisráðherra Brasilíu vildi nýta kórónuveirufaraldurinn og allt umtalið um hann til þess að draga úr reglugerðum. Þetta er meðal þess sem kemur fram á upptöku af fundi ríkisstjórnar Jair Bolsonaros 22. apríl síðastliðinn. 

Að sögn AFP fréttastofunnar er þetta eitt af fáum skiptum þar sem faraldurinn er ræddur á um tveggja klukkustunda myndbandsupptöku af fundinum. Upptakan var birt í tengslum við rannsókn á hendur Bolsonaros vegna meintra afskipta hans af lögreglurannsókn á sonum hans. 

Drullusokkur og mykjuhaugur

Upptakan er sögð stútfull af fúkyrðum, móðgandi ummælum og mögulega glæpsamlegum ummælum. Ráðherrar í stjórn Bolsonaros leggja meðal annars til að fylkis- og borgarstjórar verði reknir fyrir að fara gegn fyrirmælum forsetans. Einn ráðherranna leggur til að dómarar við hæstarétt verði færðir á bak við lás og slá fyrir að veita fylkjum vald til þess að eiga síðasta orðið varðandi reglur til að hefta útbreiðsluna. Sjálfur lét Bolsonaro gífuryrði falla um tvo fylkisstjóra, annan kallaði hann drullusokk og hinn mykjuhaug.

Fyrrverandi dómsmálaráðherrann Sergio Moro greindi frá því á dögunum að hann gæti ekki lengur setið í embætti vegna afskipta Bolsonaros. Hann sakaði forsetann um að reyna að gera breytingar í æðstu embættum lögreglunnar, og hafa kvartað undan því að fá engar upplýsingar um rannsókn á sonum hans. Á upptökunni má heyra Bolsonaro láta ummæli falla sem styðja frásögn Moros.

Fátt sagt um kórónuveirufaraldurinn

Þau ummæli bæta litlu við ásakanir í garð Bolsonaros um óeðlileg pólitísk afskipti. Það sem hefur hins vegar farið fyrir brjóstið á mörgum Brasilíumönnum eftir birtingu myndbandsins er skortur á umræðum um kórónuveirufaraldurinn og viðbrögð við honum.  Nærri 350 þúsund hafa nú greinst smitaðir af COVID-19 í landinu og yfir 22 þúsund eru látnir.

Nýta faraldurinn til að draga úr reglugerðum

Sá eini sem minnist á hann er umhverfisráðherrann. Hann heyrist segja að þar sem COVID sé nánast það eina sem fjallað sé um í fjölmiðlum ætti ríkisstjórnin að nýta tímann til þess að breyta reglugerðum. Flestir telja hann þar vera að beina sjónum sínum að vernduðum svæðum í Amazon-regnskóginum. Bolsonaro hefur þrýst verulega á að opna skóginn fyrir landbúnaði og námuvinnslu.

Ráðherrann sjálfur segist hafa verið að meina að ríkisstjórnin ætti að draga úr skriffinsku. Umhverfisverndarsinnar eiga erfitt með að taka það trúanlega. Erika Berenguer, Amazon-vistfræðingur við háskólana í Oxford og Langaster á Bretlandi, segir það löngu ljóst fyrir sér að hlutverk umhverfisráðuneytis Brasilíu sé að draga til baka allar umhverfisverndarreglugerðir í landinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi