Bandaríkin banna ferðalanga frá Brasilíu

epa08442041 Supporters of Brazilian President Jair Bolsonaro attend a demonstration, in Brasilia, Brazil, 24 May 2020. The sign reads: 'The press is the enemy of Brazil.' Hundreds of people supporting President Bolsonaro gathered around the Government Palace, were Bolsonaro met them despite coronavirus restrictions.  EPA-EFE/Joédson Alves
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Bandarísk yfirvöld tilkynntu í kvöld að þeir sem hafa verið Brasilíu  minnst fjórtán dögum áður en þeir sækja um landvistarleyfi fái ekki að koma til landsins. Bannið á ekki við um bandaríska ríkisborgara.

Kórónuveiran hefur breiðst hratt út í Suður-Ameríku að undanförnu og í Brasilíu eru staðfest smit orðin fleiri en 340 þúsund. Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu hefur átt í deilum við fylkisstjóra landsins og reynt markvisst að grafa undan þeim aðgerðum sem eiga að hefta útbreiðslu farsóttarinnar.

Fjöldi smitaðra í Bandaríkjunum nálgast nú 1,7 milljónir og nærri 100 þúsund eru látnir þar í landi af völdum COVID-19. Öll 50 ríki Bandaríkjanna eru byrjuð að losa hömlur sem settar voru til þess að hefta útbreiðsluna. Fregnir hafa borist af því að víða á ströndum og í almenningsgörðum hafi verið þéttskipað um helgina. Almennur frídagur er í Bandaríkjunum á morgun, mánudag, helgaður minningu þeirra sem hafa fallið í herþjónustu. Helgin er á ári hverju hinn óformlegi sumarboði í Bandaríkjunum.

Al Jazeera greinir frá því að lögregla hafi reynt að passa upp á að fólk héldi fjarlægð frá öðrum á ströndum Flórída. Í Tampa ákváðu yfirvöld að loka bílastæðum þar sem fjöldinn var orðinn mikill. Í Missouri voru barir og veitingastaðir ivð Ozarks-vatn þéttskipaðir. 

Deborah Birx, yfirmaður viðbragðshóps Hvíta hússins gegn kórónuveirufaraldrinum, sagðist í sjónvarpsviðtölum vestanhafs í dag hafa miklar áhyggjur af fregnum af hópamyndun fólks um helgina. Hún sagði að það væri nauðsynlegt fyrir fólk að halda fjarlægaðarmörkum. Þeir sem geti það ekki verði að bera grímu fyrir vitunum. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi