Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

19 stafi þarf til að geta lesið

24.05.2020 - 14:12
Innlent · Börn · Grunnskólar · Lestur · Menntun · nám · vísindi
Mynd með færslu
Hermundur Sigmundsson Mynd: HR
Ný rannsókn Hermundar Sigmundssonar prófessors í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Reykjavík og Háskólann í Þrándheimi sýnir að börn þurfa að kunna að minnsta kosti 19 bókstafi til að geta lesið. Hann segir þessar niðurstöður sýna hversu mikilvægt sé að hefja lestrarkennslu á því að kenna bókstafi og hljóð. Hann gagnrýnir að aðferðir, þar sem áherslan sé á aðra þætti, séu notaðar í um helmingi grunnskóla hér á landi. 

Í rannsókninni var um 500 börnum fylgt eftir fyrsta skólaárið. „Við skoðuðum bókstafa og hljóðakunnáttu. Hún var mæld þrisvar sinnum í byrjun, strax eftir jól og í maí/júní. Við vorum að skoða hversu marga bókstafi og hljóð börnin kunna,“ segir Hermundur.

Mikill munur á strákum og stelpum

Hann segir að eitt af höfuðmarkmiðunum hafi verið að skoða hversu marga bókstafi og hljóð þurfi að kunna til að vera læs. Rannsóknin sýndi að til að geta lesið þarf að kunna að minnsta kosti 19 bókstafi. Ennfremur kom talsverður kynjamunur í ljós. 

„Við fundum út að 11% kunnu að lesa þegar þau byrjuðu í skólanum. 70% af þeim voru stelpur. 27% kunnu ekki að lesa eftir fyrsta skólaárið, þar af voru 70% drengir,“ segir Hermundur.

Um 80 skólar kenna ekki bókstafi og hljóð í byrjun

Hann segist ekki vita til þess að sambærilegar rannsóknir hafi verið gerðar hér á landi. Ekki byggi allar lestrarkennsluaðferðir, sem eru notaðar hér á landi, á þessu. „Það eru um 80 skólar sem ekki eru með aðferðafræði sem byggir á að kenna bókstafi og hljóð í byrjun kennslu. Það verður að breyta því ef við ætlum að bæta lestrarfærni hjá íslenskum börnum,“ segir Hermundur.