Skíðabærinn Ischgl í Austurrísku ölpunum er nú eins og draugabær, rúmum tveimur mánuðum eftir að hann var settur í sóttkví vegna kórónuveirunnar. Ischgl er smábær vestast í Austurríki við landamærin að Sviss. Þar búa um fimmtán hundruð manns en skíðasvæðin fyrir ofan bæinn eru ein þau stærstu og flottustu í heimi, en bærinn deilir svæðinu með svissneska skíðabænum Samnaun.
Á Tíról-svæðinu í Austurríki vinnur um fjórðungur alls vinnandi fólks í ferðaþjónustu. Og bara til Ischgl kemur um hálf milljón ferðamanna á hverjum vetri. Svæðið er því mjög vinsælt skíðasvæði og þar er tímabilið líka lengra nær alla jafna alveg frá byrjun nóvember og fram í maí. En það styttist töluvert í ár, með tilheyrandi búsifjum fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu. Stjórnvöld í Austurríki, á Tíról-svæðinu og í Ischgl brugðust seint við viðvörunum um að kórónuveiran hefði blossað upp í bænum í febrúar og drógu það lengi að bregðast við.
Og nú er spurt hvers vegna? Var það þekkingarleysi á sjúkdómnum og þeim hörmungum sem hann hafði þegar valdið í nágrannaríkjunum? Var það sinnuleysi eða tóku stjórnvöld á þessum vinsælu skíðasvæðum hagsmuni sína fram yfir hagsmuni ferðamanna sem þar voru. Varð græðgi til þess að veiran grasseraði þar, og dreifðist síðan víða um heim?