Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Upphaf faraldursins í Ischgl - Græðgi eða sinnuleysi?

23.05.2020 - 09:03
Mynd: TV2 / TV2
Hagsmunatengsl ferðaþjónustunnar í Tíról og yfirvalda í Austurríki skýra sinnuleysi við COVID-faraldrinum í skíðabænum Ischgl, að mati stjórnarandstæðinga í Austurríki. Þúsundir taka nú þátt í hópmálsókn og fara fram á bætur frá Austurríska ríkinu vegna veikindanna en ýmislegt bendir til þess að ferðamálayfirvöld á skíðasvæðunum hafi leynt veikindum bæði starfsmanna og ferðamanna frá því í byrjun febrúar, löngu áður en íslensk yfirvöld vöruðu við smitum sem voru rakin til skíðasvæða alpanna.

Skíðabærinn Ischgl í Austurrísku ölpunum er nú eins og draugabær, rúmum tveimur mánuðum eftir að hann var settur í sóttkví vegna kórónuveirunnar. Ischgl er smábær vestast í Austurríki við landamærin að Sviss. Þar búa um fimmtán hundruð manns en skíðasvæðin fyrir ofan bæinn eru ein þau stærstu og flottustu í heimi, en bærinn deilir svæðinu með svissneska skíðabænum Samnaun.

Á Tíról-svæðinu í Austurríki vinnur um fjórðungur alls vinnandi fólks í ferðaþjónustu. Og bara til Ischgl kemur um hálf milljón ferðamanna á hverjum vetri. Svæðið er því mjög vinsælt skíðasvæði og þar er tímabilið líka lengra nær alla jafna alveg frá byrjun nóvember og fram í maí. ​En það styttist töluvert í ár, með tilheyrandi búsifjum fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu. Stjórnvöld í Austurríki, á Tíról-svæðinu og í Ischgl brugðust seint við viðvörunum um að kórónuveiran hefði blossað upp í bænum í febrúar og drógu það lengi að bregðast við.

Og nú er spurt hvers vegna? Var það þekkingarleysi á sjúkdómnum og þeim hörmungum sem hann hafði þegar valdið í nágrannaríkjunum? Var það sinnuleysi eða tóku stjórnvöld á þessum vinsælu skíðasvæðum hagsmuni sína fram yfir hagsmuni ferðamanna sem þar voru. Varð græðgi til þess að veiran grasseraði þar, og dreifðist síðan víða um heim?

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Björgvinsson - RUV
Um fimmtán hundruð búa í Ischgl en skíðasvæðin fyrir ofan bæinn eru ein þau stærstu og flottustu í heimi.

Skíðabærinn með skrítna nafnið hefur verið umfjöllunarefni fjölmiðla um allan heim síðan í mars og ekki að undra. Um ellefu þúsund smit víðsvegar um Evópu og 25 dauðsföll eru rakin til Ischgl. Yfirvöld í Austurríski staðfestu fyrsta tilfelli COVID-19 í bænum sjöunda mars. Sá sem veiktist var barþjónn á skíðabarnum Kitzloch, flautubarnum fræga, þar sem að flauturnar gengu manna á milli og kórónuveiran þar með. Fram til þessa var því skíðabærinn Ischgl, að mati austurrískra yfirvalda, öruggur og hætta á smiti lítil eða engin. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Björgvinsson - RUV