Undraheimur höfundar sem var að drukkna úr aðdáun

Mynd: Tove Janson / Tove Janson

Undraheimur höfundar sem var að drukkna úr aðdáun

23.05.2020 - 10:39

Höfundar

Þórdís Gísladóttir fjallar um Tove Jansson: Ord, bild, liv, sex hundruð síðna bók Boel Westin sem fjallar um viðburðaríkt líf og stórmerkilegt ævistarf finnska múmínskaparans.

Þórdís Gísladóttir skrifar:

Sennilega eru fáir höfundar meira elskaðir og dáðir nú um stundir en Tove Jansson, höfundur bókanna um múmínálfana. Rithöfundurinn og myndlistarkonan, sem lést fyrir tæpum tuttugu árum, eignast sífellt fleiri aðdáendur, ekkert lát virðist á því, og reglulega bætast finnskir múmínbollar í eldhússkápa og uppþvottavélar um allan heim.

Frábærir barnabókahöfundar njóta, því miður, ekki sömu virðingar og svokallaðir fullorðinsbókahöfundar. Tove Jansson fékk aldrei Nóbelinn í bókmenntum, þau umtöluðu verðlaun sem fjórtán konur og hundrað karlar hafa hingað til hlotið. Ég leyfi mér samt að fullyrða að margir verðlaunahafa bókmenntanóbelsins eru margfalt verri höfundar en Tove. Þannig er nú réttlætið í heiminum. Þess má líka til gamans, eða ekki til gamans, geta að jafn margir franskir rithöfundar hafa hlotið Nóbelsverðlaun í bókmenntum og konur almennt, það er að segja fjórtán franskir karlar. En þetta var nú útúrdúr.

Mynd með færslu
 Mynd: Reino Loppinen - Wikimedia Commons
Janson lést árið 2001 en persónur hennar eru enn að selja vörur í bílförmum.

Bækur Tove Jansson um múmínálfana komu fyrst út á íslensku fyrir um fimmtíu árum. Nokkrar voru þó lengi óútgefnar, en sem betur fer hefur undanfarið verið bætt í safnið. Forlagið er um þessar mundir að gefa út í þýðingum þær múmínálfabækur sem hefur vantað á íslensku og nýlega kom einnig út Sumarbókin í þýðingu Ísaks Harðarsonar. Hún er ein þeirra bóka Tove sem ætlaðar eru fullorðnum, en hún skrifaði um tug verka sem voru ekki ætluð börnum, það eru líka afar heillandi bókmenntir.

Ég hef lesið múmínálfabækur frá því ég var bráðung og setningar úr bókunum hafa líkt og grafið sig inn í heilann á mér. Þaðan veiði ég reglulega eina og eina málsgrein mér til halds og trausts, sumar virka eins og gleðipillur þegar melankólían hellist yfir, aðrar koma til hjálpar og réttlætingar þegar ég klúðra einhverju. Og væri ég með húðflúr á annað borð þá væri það sennilega hemúll á rasskinninni, múmínmamma á herðablaðinu, fillífjonka á lærinu eða jafnvel ískaldur morri á maganum.

Fyrir allnokkrum árum kom út bók um Tove Jansson eftir Boel Westin, fræðikonu sem hefur skrifað doktorsritgerð um höfundinn og verk hennar. Bókin heitir Tove Jansson: Ord, bild, liv -  eða Orð, mynd, líf og sú bók er sex hundruð síðna doðrantur. Boel Westin varð góð vinkona Tove Jansson, þegar hún skrifaði um hana doktorsritgerðina og fékk aðgang að öllu hennar persónulega bréfa- og bókasafni. Verk fræðikonunnar er sannkallaður fjársjóður fyrir forvitna og ævisagnaþyrsta aðdáendur höfundar múmínálfabókanna.

Hin finnlandssænska Tove Jansson fæddist á listamannaheimili í Helgsingfors árið 1914 og lést í sömu borg fyrir nítján árum, árið 2001, þá 87 ára gömul. Hún menntaði sig við listaháskóla í Stokkhólmi og París og leit fyrst og fremst á sig sem myndlistarkonu, umfram allt þó á fyrri hluta ferils síns. Hún hóf listamannsferilinn sem skopmyndateiknari, varð síðan málari, en síðan tóku bókmenntirnar meira yfir. Fyrsta múmínálfabókin, Litlu álfarnir og flóðið mikla, kom út árið 1945, og þess má til gamans geta að það sama ár kom út fyrsta bókin um hina heimsfrægu krakkabrussu Línu Langsokk eftir Astrid Lindgren. Síðan fylgdu fleiri múmínálfabækur í kjölfarið áratugina á eftir og einnig önnur skáldverk og myndasögur.

Ferill Tove Jansson var alls ekki ein samfelld sigurganga. Fyrstu múmínálfabækurnar seldust ekki vel. Fólk var almennt seint að kveikja á snilldinni sem þessar bókmenntir geyma, en eftir því sem árin liðu bættust hrifnir lesendur í hópinn og að lokum var listakonan hálfpartinn kæfð í aðdáun. Síðasta útgefna verk hennar, nóvellan Meddelande, eða Skilaboð, er eins konar neyðaróp frá höfundi sem er að drukkna í frægð, aðdáun og ekki síst sendibréfum. Hrifnir lesendur Tove Jansson sendu henni árlega að jafnaði um tvö þúsund aðdáenda- og þakkarbréf síðustu árin sem hún lifði. Aumingja konan, sem lagði mikinn metnað í að svara bréfum lesenda sinna, var orðin hálfbuguð af þessu öllu saman. Tove var málari og rithöfundur, en hún byggði líka hús, sigldi í skerjagarðinum, bjó á vindasamri eyju á sumrin, ferðaðist mjög mikið um heiminn og átti í ástarsamböndum. Þetta tók auðvitað sinn tíma og orku og hún var aldrei með ritara sem sá um pappírsvinnuna fyrir hana, hún reyndi að finna jafnvægi í sköpun og skyldum og það varð undir það síðasta býsna erfitt.

Ég óttast stundum að bækurnar um múmínálfana drukkni í draslinu, ef ég má orða það þannig. Múmínbollar og annar borðbúnaður, töskur, sokkar, sængurföt, handklæði og allskonar fatnaður með myndum af persónum bókanna er gríðarlega vinsælt. Framleitt er kaffi, te, súkkulaði og fleira sælgæti með myndum af feitu og mjúku múmínálfunum og vinum þeirra, hægt er að kaupa dúkkur og styttur með sögupersónum Tove Jansson. Svo er auðvitað til heilt múmínálfaland í Finnlandi, skemmtigarður þar sem starfsmenn spígspora um í gervi persóna bókanna, þar eru seldar pönnukökur eftir uppskrift múmínmömmu og auðvitað hinir margumræddu bolla frá Arabia-verksmiðjunum. Hugmyndir eru uppi um að búa til fleiri slíka töfrandi skemmtigarða víða um heim, kannski er jafnvel búið að því. Þetta er líklega gott og blessað en mig langar samt stundum að setja vísifingurinn á loft og biðja fólk frekar að kaupa múmínálfabækurnar en múmínálfabollana.

Hér gefst ekki tími til að kafa djúpt í ævisögulega bók Boel Westin um Tove Jansson og ekki heldur í bókmenntaverk þeirrar síðarnefndu, en bækur Tove sameina það að vera bæði angurværar og fullar af fyndni, ævintýralegri lífsgleði og lífsþorsta. Sem dæmi má nefna Pípuhatt Galdrakarlsins, þar sem bómullarkennd ský og dularfullar kynjajurtir vaxa upp úr hatti, vatn verður að saft og múmínsnáðinn breytist um tíma í furðulegan álf. Fáum höfundum tekst að skrifa jafn kliðmjúkan texta og Tove Jansson. Ég lýk þessu með dæmi úr síðasta kafla Pípuhatts Galdrakarlsins í þýðingu Steinunnar Briem.

„Það var í ágústlok. Uglurnar vældu á næturnar, og leðurblökur komu í stórum svörtum hópum og hnituðu þögla hringa yfir garðinum. Vindsveipir fóru um skóginn, og sjórinn var úfinn. Loftið var þrungið eftirvæntingu og angurværð í senn, og tunglið var stórt og sterkgult á litinn. Múmínsnáðinn var alltaf hrifnastur af seinustu vikum sumarsins, en hann gerði sér ekki almennilega grein fyrir hvers vegna það var. Vindurinn og hafið höfðu skipt um tón, allt angaði af breytingum, trén stóðu og biðu.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Heimspekin og kjarnorkuváin í Múmíndal

Hönnun

Rándýra múmínbollanum skilað vegna galla

Pistlar

Þegar hús verða söfn

Tónlist

Múmínálfar í söngvaferð