Tók til hendinni eftir fyrsta keppnisdag á Akranesi

Mynd með færslu
 Mynd: Golf.is

Tók til hendinni eftir fyrsta keppnisdag á Akranesi

23.05.2020 - 14:48
Haraldur Franklín Magnús, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur átti góðan fyrsta hring á fyrsta stigamóti Golfsambands Íslands sem fram fer á Garðavelli á Akranesi. Hann lét þó ekki þar við sitja heldur hreinsaði upp boltana á æfingasvæðinu eftir keppni.

 

Haraldur Franklín er sem stendur í forystu á mótinu á fimm höggum undir pari, hann endaði á sama höggfjölda og Hákon Örn Magnússon, einnig úr GR, og því deila þeir forystunni.

Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín tyllti sér svo á boltatýnsluvélina og sópaði upp mörg hundruð bolta sem aðrir kylfingar höfðu slegið fyrr um daginn í upphitun sinni fyrir átökin. Vefsíða Golfsambands Íslands, golf.is greinir frá þessu.

Haraldur er með keppnisrétt á næst sterkustu mótaröð Evrópu, Challenge Tour, og hann er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur leikið á einu af fjórum risamótunum í golfi atvinnukylfinga.

Annar keppnisdagur fer fram í dag og eftir hann verður niðurskurður en þá komast áfram 70% af fjölda keppenda úr hvorum flokki. Ef keppendur eru jafnir í neðstu sætum ofan niðurskurðarlínu skulu þeir báðir/allir halda áfram.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Golf.is
Mynd með færslu
 Mynd: Golf.is