Tíu þúsund lygar Lance Armstrong

epa03836352 (FILE) A file picture dated 24 July 2005 shows US cyclist Lance Armstrong of the Discovery Channel Team signalling a seven as he is on his way to win his seventh Tour de France in Corbeil-Essonnes, France. According to media reports on 25
 Mynd: EPA - EPA FILE

Tíu þúsund lygar Lance Armstrong

23.05.2020 - 18:26
Hjólreiðamaðurinn Lance Armstrong sem svindlaði sér leið til sigurs sjö sinnum í frægustu hjólreiðakeppni heims, Tour de France, segir að það sé mesta furða að hann hafi ekki orðið fjöldamorðingi miðað við uppeldið sem hann fékk.

 

Þetta kemur fram í nýrri heimildarþáttaröð í framleiðsu ESPN um kappann. Þáttaröðin verður fjórir tímar í heildina og er stefnan að fylgja eftir frábærum Last Dance þáttum ESPN stöðvarinnar um síðasta tímabil Michael Jordan hjá Chicago Bulls árið 1997-1998.

„Það er kraftaverk að ég sé ekki fjöldamorðingi,“ segir Lance Armstrong sem notaði hin ýmsu frammistöðubætandi lyf á ferli sínum sem hjólreiðamaður.

Armstrong segir í samtali við The Guardian að stjúpfaðir sinn hafi barið sig eins og harðfisk á uppvaxtarárum sínum og þá hafi móðir hans, Linda Armstrong, verið einungis 17 ára þegar hún átti hann. Stjúpfaðir hans, Terry Armstrong, viðurkennir að hafa beitt hörðum aðgerðum í uppeldi Lance og vill meina að það hafi hjálpað honum.

Fyrsti hluti þáttanna verður sýndur í Bandaríkjunum á sunnudaginn, og næsti hluti viku seinna. Þar ræðir Lance meðal annars um eigin lyfjaneyslu í einu svæsnasta lyfjahneykslismáli seinni ára. 

„Í mínu tilfelli eru þetta kannski í kringum 10.000 lygar,“ segir Armstrong aðspurður um hversu oft hann hafi logið til um að vera ekki að neyta ólöglegra lyfja.