Tíu ára stúlka vill gleðja aðra

23.05.2020 - 03:52
Erlent · Bandaríkin · Börn · COVID-19
Mynd með færslu
 Mynd: Steve Johnson - Pexels
Chelsea Phaire, hjartahlý tíu ára stúlka sem býr í Danbury í Connecticut í Bandaríkjunum, fann skemmtilega leið til að gleðja önnur börn meðan á Kórónaveirufaraldrinum stendur.

Hún tók upp hjá sjálfri sér að senda pakka til skólabarna sem búa við kröpp kjör. Pakkarnir innihalda allskonar ómissandi dót til listsköpunar, t.a.m. litabækur, vaxliti, pappír og penna af ýmsu tagi.  

 „Alveg frá því Chelsea var sjö ára þrábað hún okkur að stofna góðgerðarfélag,” segir Candace móðir Chelsea litlu í samtali við CNN. Hún veit nefnilega sjálf af biturri reynslu hve líknandi og hressandi listsköpun getur verið fyrir sálina.  

Að sögn móðurinnar gaf stúlkan sig ekki og á tíunda afmælisdegi hennar í ágúst síðastliðnum voru foreldrarnir tilbúnir að láta slag standa.  

Fjölskyldan stofnaði samtökin „Chelsea’s Charity” og byrjaði á því að biðja veislugesti að leggja frekar til vörur handa öðrum börnum til listsköpunar en að kaupa afmælisgjafir handa henni sjálfri.  

Nú þegar hafa yfir 1500 börn fengið sendar gjafir frá Chelsea sem stytta þeim stundir og létta lundina meðan þeim líður illa á tímum Kórónaveirunnar.  

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV