Skapa 600 ný störf í sumar

23.05.2020 - 10:05
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Reykjanesbær ætlar með aðstoð ríkisins að skapa sex hundruð störf í sumar en þar hefur atvinnuleysi aldrei mælst meira en nú. Fjögur þúsund eru án vinnu að hluta eða öllu leyti.

Það er 28 prósenta atvinnuleysi í Reykjanesbæ. Þar af eru tæp tólf prósent alveg án vinnu. Til að reyna að bæta úr málum hefur bærinn sett aukinn kraft í að byggja Stapaskóla og skapað þannig fleiri störf.  Skólinn er í Innri Njarðvíkurhverfi og verður tæpir átta þúsund fermetrar og rúmar sex hundruð nemendur.

Aldrei áður hefur atvinnuleysi í Reykjanesbæ mælst jafnmikið.  „Þar af leiðandi höfum við aukið við fjárfestingar á þessu ári og munum gera á því næsta líka. Alls munum við verja um 3,2 milljörðum í framkvæmdir á þessu ári. Við höfum sem sagt hækkað töluna um rúmlega fimm hundruð milljónir. Svo erum við að horfa til sumarstarfa og tímabundinna starfa. Þar af höfum við í góðu samstarfi við stjórnvöld notið þess að geta auglýst 307 störf í úrræði fyrir námsmenn í sumar. Það eru störf af öllum gerðum, allt frá verklegum framkvæmdastörfum yfir í skrifstofustörf og jafnvel þannig að fólk getur verið að nýta þá menntun sem það er að sækja sér í raunveruleg verkefni fyrir bæjarfélagið í sumar,“ segir Sigurgestur Guðlaugsson, verkefnastjóri viðskiptaþróunar og sérstaks verkefnis Reykjanesbæjar um viðbrögð við COVID í efnahagsmálum.

Þá verður bætt í Vinnuskólann þannig að sautján ára unglingar geta fengið vinnu við að snyrta bæjarlandið. 

„Og svo eru sextíu til áttatíu störf sem við munum getað ráðið fólk í af atvinnuleysisskrá til þess að sinna verkefnum sem annars hefðu setið á hakanum hjá bænum,“ segir Sigurgestur.

Hvað eru þetta mörg störf í heildina sem þið náið að búa til með þessu?

„Við erum að ná að búa til um sex hundruð störf, tímabundin störf. Við erum að horfa á tímabilið fram á haustið,“ segir Sigurgestur.

Þá hyggst ríkið verja um tvö hundruð og fimmtíu milljónum í námsúrræði á Suðurnesjum. 

Sigurgestur segir að einnig sé farið að huga að verkefnum á næsta ári.

„Og bara í því samhengi er verið að bæta í hjúkrunarheimili á næsta ári. Við erum að reisa nýja skólphreinsistöð. Við erum þrátt fyrir þetta að horfa fram á að næsta ár verður sömuleiðis erfitt alla vega fram á næsta sumar,“ segir Sigurgestur.