Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Síðan sem sameinaði Halta hóru og söngstjörnur Íslands

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Síðan sem sameinaði Halta hóru og söngstjörnur Íslands

23.05.2020 - 09:45

Höfundar

Hin sáluga vefsíða rokk.is var gríðarlega vinsæl á sínum tíma en um 1.300 hljómsveitir notuðust við síðuna til að koma tónlist sinni á framfæri. Margt af okkar þekktasta tónlistarfólki í dag hóf feril sinn á rokk.is þar sem allt snérist um að koma lagi á vinsældalista síðunnar.

Rokk.is opnaði árið 2001 og það voru þeir Arngrímur Arnarsson, Eggert Hilmarsson og Hákon Hrafn Sigurðsson sem stofnuðu síðuna. Hákon Hrafn segir aðdragandan hafi verið þann að fjölmargar hljómsveitir voru að taka upp tónlist en eini dreifingarvettvangurinn var útvarp. Í fyrstu voru sigursveitir Músíktilrauna mjög tengdar velgengni rokk.is. „Þetta voru svolítið Músíktilraunahljómsveitirnar, Andlát voru frá upphafi á vefnum og Búdrýgindi urðu mjög vinsælir 2002. Dáðadrengir, Mammút, Jakobínarína, Foreign Monkeys. Þetta var stemningin, þessar hljómsveitir voru ráðandi,” segir Hákon Hrafn.

Margar hljómsveitir og tónlistarfólk steig sín fyrstu skref á rokk.is en Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, söngkona Of Monsters and Men og tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti hófu tónlistarferil sinn á síðunni. „Ég tók mín fyrstu skref á rokk.is. Var annarsvegar sóló, bara ég með eitthvað eitt lag. Svo var ég líka í hljómsveit með vinum mínum, fyrsta hljómsveitin mín hét Pointless sem er alveg stórkostlegt nafn,” segir Nanna sem fannst frábært að hafa vettvang þar sem hún gat deilt sínum lögum með öðrum og séð hvað aðrir jafningjar hennar voru að gera. „Við vorum að reyna að gera eitthvað popp-pönk, það var svona stefnan. Við elskuðum öll Blink-182,” segir Nanna sem fylgdist vel með síðunni og þá sérstaklega vinsældalistanum. „Það var ógeðslega spennandi ef maður náði lagi þar inn, það var alltaf eitthvað svona flott markmið. Manni þótti þetta ótrúlega merkilegt ef maður náði þar inn. Maður var spenntur að sjá hverjir voru í topplistanum og var að deila því með vinum sínum,” segir Nanna Bryndís. Fyrsta hljómsveit Ásgeirs Trausta notaði einnig rokk.is til að miðla sínum lögum. „Ég man vel eftir rokk.is og notaði það þónokkuð þegar ég var yngri. Fyrsta hljómsveitin sem ég var í hét Wildberry og við settum lögin okkar þarna inn með von um að einhver myndi kannski heyra þau og fíla,” segir Ásgeir Trausti en hljómsveitin var undir áhrifum þekktra erlendra sveit á borð við Nirvana, Weezer, Muse og fleiri. „Það gerðist nú ekki mikið með lögin minnir mig, en það var samt rosalega gaman og spennandi að hafa sína síðu þar sem maður gat sett upptökurnar sínar inn og fyrir okkur held ég að þetta hafi gefið okkur smá spark í rassinn með að taka upp lögin okkar,” segir Ásgeir Trausti.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásgeir Trausti er fyrrum liðsmaður Wildberry

Þrátt fyrir að Ásgeir Trausti hafi ekki náð vinsældum á rokk.is með Wildberry eru dæmi um íslenskt tónlistarfólk sem fékk smjörþefinn af frægð inn á vefnum. Salka Sól er ein þeirra en frumsamið lag hennar náði þriðja sæti á vinsældalista síðunnar. „Þetta hljómar eins og einhver Al-Anon fundur en þetta voru hálfgerð trúarbrögð. Þetta var allaveganna uppáhalds síðan mín þegar hún var uppi. Ég fylgdist mjög vel með þeim sem voru að setja þarna inn. Svo var þarna topp tíu listinn. Þú varst eiginlega orðin rokkstjarna ef þú komst á þann lista,” segir Salka Sól. 

Salka Sól var dugleg að semja og taka upp sín eigin lög og söng hún þá mikið með vinkonu sinni, Lilju Guðmundsdóttur. Eitt lag þeirra náði einmitt miklum vinsældum á síðunni. „Svo gerðist það að okkar lag fór í annað eða þriðja sæti. Við vorum bara búnar að meika það. Vorum í þriðja sæti á rokk.is og næst var það bara Glastonbury,” segir Salka Sól. Þetta vinsæla lag átti eftir að fylgja henni í langan tíma. Hún segist sjálf hafa verið afar feimin við að syngja sjálf en ákvað að láta slag standa þegar hún var á þriðja ári í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og tók hún þátt í söngvakeppni skólans og flutti þá lagið sem hafði slegið í gegn á Rokk.is. Salka Sól sigraði keppnina í FB og fór því með lagið í Söngvakeppni Framhaldskólanna. 

Einn vinsælasti tónlistarmaður landsins í dag upplifði einnig sína fyrstu frægð inn á rokk.is en það er Daði Freyr. „Þegar ég byrjaði að gefa út tónlist gerði ég það á rokk.is. Man ekki nákvæmlega hvenær það var. Þá setti ég lag sem heitir Flööö sem ég gerði fyrir stuttmynd sem ég var að vinna með vini mínum í Laugarnesskóla, það varð svona mini-hit í Helluskóla og Hvolsvallaskóla. Það var svona fyrsti þefurinn af því að fólk væri að hlusta á einhverja músík sem maður var að gera. Það var svo mikið af góðri músík á rokk.is,” segir Daði Freyr.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Daði Freyr náði vinsældum á Hellu og Hvolsvelli í gegnum rokk.is

Þá eru dæmi um tónlistarfólk sem taldi sig hafa slegið í gegn en áttaði sig seinna meir að það var kannski ekki alveg raunin. Tónlistarmaðurinn Auður var um tíma í þungarokkhljómsveit og notaði sveitin frumstæðar græjur til að taka upp lög sín og setja á rokk.is. „Þar fengum við feedback í fyrsta skipti frá fólki. Ég man eftir einum ummælum sem voru ógeðslega jákvæð og það hvatti okkur ógeðslega mikið. Þetta var fimm stjörnu umsögn og það var verið að tala um hvað þetta væri ógeðslega flott og við peppuðumst geðveikt við þetta. Það var ekki fyrr en sjö árum seinna sem ég skoðaði aftur þann póst og fattaði að þetta var kaldhæðni og það var verið að gera grín að okkur því við vorum bara litlir krakkar og hljómuðum eins og shit. En rokk.is, það var geðveikur miðill,” segir Auður.

Söngkonan Una Stef taldi sig einnig hafa öðlast mikla frægð eftir að lag með henni náði vinsældum á vefnum. „Ég man mjög vel eftir því þegar við settum lagið inn, ég var svo feiminn að ég sagði engum vinum mínum frá því. Ég var svo forvitin að setja þetta inn og það fór inn á einhvern vinsældalista og ég man að ég hafði áhyggjur af því að ég væri orðin svo sjúklega fræg og ég var svo feimin að ég var ekki alveg tilbúin í það. En ég var bara ekkert fræg,” segir Una Stef.

Rokk.is var einnig frábær vettvangur fyrir tónlistarfólk að uppgvöta nýjar hljómsveitr. Ásgeir Trausti man enn vel eftir þeim hljómsveitum sem hann hlustaði mikið á þegar að vefurinn var hvað vinsælastur. „Ég notaði þetta mest til að uppgvöta tónlist og ég man að ég var mjög hrifinn af böndum eins og Coral, Tony the Pony, Innvortis, Noise, Gavin Portland og fleirum,” segir Ásgeir Trausti sem hugsar með hlýhug til síðunnar. „Þetta var mjög góð vefsíða sem studdi við hvatti ungt tónlistarfólk og ég er mjög þakklátur fyrir það,” segir Ásgeir Trausti. Söngkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir, sem var í hljómsveitinni Rökkurró áður en hún fór að gefa út eigin tónlist notaðist einnig við rokk.is til að fylgjast með sínum uppáhalds hljómsveitum. „Ég fór að hafa áhuga á þungarokki á þessum tíma, eða svona hardcore tónlist. Ég man að ég fann I Adapt þarna og Gavin Portland, einhver lög með þeim. Svo man ég líka eftir Dáðadrengjum, Benny Crespo’s Gang og svona,” segir Hildur sem nýtti sér einnig síðuna þegar að hljómsveitin Rökkurró setti lög þar inn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Det store nordiske juleshow - DR
Áður en Auður gerðist poppstjarna sendi hann lög með þungarokksveit sinni inn á rokk.is

Ein af þeim sveitum sem græddi hvað mest á rokk.is er hljómsveitin Hölt Hóra. Söngvari þeirra, Atli Fannar Bjarkason segir að lag sveitarinnar, Vændiskonan, hafi fyrst ratað inn á síðuna í afar lélegum gæðum. Hljómsveitin hafði þá tekið lagið upp á segulbandsspólu og gamalt upptökutæki og aðeins notað einn hljóðnema við að taka lagið upp. Frændi Atla Fannars, Magnús Öder, fór svo á upptökunámskeið og bauðst þá til að taka upp nýja útgáfu af laginu og nú skildi það vera gert almennilega. Nýja útgáfan fór einnig inn á rokk.is og sló rækilega í gegn og fór alla leið á topp vinsældarlistans. Það má því segja að vefurinn hafi einnig hjálpað til við að koma upptökuferlinum hjá Magnúsi Öder af stað en hann er í dag einn farsælasti upptökustjóri landsins. Hljómsveit Ásgeirs Trausta notaðist einnig við óhefðbundnar aðferðir við að taka upp sína tónlist en hann minnist þess að bassaleikari Wildberry hafi notast við hjólbörur til að ferja borðtölvu foreldra sinna í æfingaraðstöðu sveitarinnar þar sem tölvað hafði innbyggðar upptökubúnað. „Þetta hljómaði ekkert voðalega vel en það er samt gaman að eiga þetta til. Upptökurnar urðu svo metnaðarfyllri með tímanum,” segir Ásgeir Trausti

Atli Fannar minnist þess einnig hversu mikilvægur þessi vettvangur var fyrir nýjar hljómsveitir. „Rokk.is var fyrsti samfélagsmiðillinn, hann var samfélagsmiðill þegar að hvorki Myspace né Facebook eða nokkur annar miðill var farinn að hjálpa hljómsveitum að koma sér á framfæri. Hann var með vinsældalista og fyrsta markmiðið var að sjálfsögðu að komast inn á þennan vinsældalista eiginlega sama hvað það kostaði,” segir Atli Fannar sem minnist einnig spjallborðsins á vefnum. „Þetta var gaman og alveg frábært að fá svona viðbrögð inn á rokk.is. Þar var spjallborð og virkilega hvetjandi að fá svona rafræn viðbrögð. Við héldum áfram að setja lög þarna inn á meðan við störfuðum. Rokk.is var sparkið í rassinn sem við þurftum til að halda sér við efnið á þessum tíma.”

Fleiri minnast spjallborðsins með hlýhug en tónlistarmaðurinn Logi Pedro var virkur notandi þess. „Rokk.is var dáltið merkilegt dæmi fyrir mér. Þetta var fyrsta heimasíðan sem var með svona spjallborði sem ég tók þátt á. Ég stundaði þetta spjallborð alveg rosa mikið Rokk.is var miðstöðin fyrir nýja íslenska tónlist. Á þessum árum er mjög mikil gróska. Indý er að rísa á Íslandi og maður var að kynnast allskonar fólki, þetta var eins og félagsmiðstöð á netinu. Ég man eftir topplistunum, ég var að fylgjast með hvað var að detta þar inn. Rokk.is var eins og athvarf fyrir íslenska tónlist, segir Logi Pedro. Tónlistarmaðurinn Friðrik Dór minnist einnig á spjallborðið en hann gerði góða hluti sem trommari hafnfirsku rokksveitarinnar Fendrix á rokk.is.  „Þarna var verið að ræða stöffið sem var verið að setja inn á síðuna, mikið að tala um Músíktilraunir, úrslitin þar og hver hefði átt að fara áfram. Það var mikil umræða þegar við fengum okkur nýjan gítarleikara, Siggi Raggi kom og þá var umræða um hann. Þetta var skemmtilegt og fólk var mjög á tánum. Þetta var lifandi umræða,” segir Friðrik Dór. 

Bassaleikarinn Árni Hjörvar hefur síðustu ár ferðast um heiminn með bresku hljómsveitinni The Vaccines en tónlistarferill hans hófst á rokk.is. Hann, líkt og aðrir, minnist með hlýhug á samfélagið sem rokk.is skapaði. „Án rokk.is hefði tónlistarsenan ekki náð að þróast á þann hátt sem hún gerði. Allar hljómsveitirnar sem við þekkjum enn þann dag í dag byrjuðu þarna. Þetta var einhvernveginn fyrir tíma samfélagsmiðla, þá var það að geta farið á eina slóð og fundið alla kollega þína í Reykjavík og víðar á sama stað alveg ótrúlegt,” segir Árni. 

Mynd: Gunnar Hansson / Gunnar Hansson
Friðrik Dór trommaði með rokksveitinni Fendrix

Þrátt fyrir nafngift síðunnar mátti finna ýmsar tónlistarstefnur á vefnum en einn þeirra sem setti rapplög þar inn er núverandi landsliðsmaður í handbolta, Bjarki Már Elísson. Þrátt fyrir að ná öðru sæti á Rímnaflæði ákvað hann að leggja rappið á hilluna og einbeita sér að handboltanum. „Ég þurfti að velja á sínum tíma. Þegar ég var í rappinu voru mjög fáir í senunni, en núna er þetta orðin vinsælasta tónlistin á Íslandi í dag þannig að kannski hefði maður átt að vera aðeins lengur, ég veit það ekki kannski var ég ekki nógu góður,” segir Bjarki Már. 

Mynd: EPA / EPA
Bjarki Már Elísson gerði garðinn frægan sem rappari Undirheima áður en handboltaferillinn fór á flug

Vinsælasta lag í sögu rokk.is kom þó úr óvæntri átt en það var hinn 12 ára gamli Jóhann Páll Jóhannsson sem gaf lagið út á sínum tíma undir nafninu Johnny Poo. „Textinn er nú bara einhver steypa sko. Viðlagið varð til heima hjá Halldóri Eldjárn, sem var í Sykur. Við vorum stundum að gera tónlist saman og einhvern tímann sagði hann við mig að við ættum að gera lag sem héti Hvar er Guðmundur?  Svo líða einhverjar vikur eða dagar og þá samdi ég lagið með gítargripunum og tók það eiginlega strax upp og setti inn á rokk.is. Textinn, ég veit það ekki. Lamadýrið Guðmundur, þetta er eitthvað bull sem mér þótti sniðugt þegar ég var 12 ára,” segir Jóhann Páll. 

Stofnendur síðunnar segja að endalok rokk.is megi rekja til samfélagsmiðilsins Myspace. Hljómsveitir settu frekar lög þangað inn og smátt og smátt minnkaði aðsóknin á síðuna og engin ný lög bættust við. Svo kom að því að hljómsveitir fóru að senda tölvupósta og báðu um að lögin sín yrði tekin út af síðunni, þá voru þær kannski komnar með plötusamning og máttu því ekki hafa heilu plöturnar ókeypis á vefnum. Árið 2012 tók Hákon Hrafn svo þá ákvörðun að loka síðunni.

Matthías Már og Brynjar Birgisson fóru yfir sögu Rokk.is á Rás 2. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér. 

Mynd:  / 
Johnny Poo - Hvar er Guðmundur?

Tengdar fréttir

Menntamál

Gagnrýnir ráðherra fyrir að gleyma tónlistarkennurum

Tónlist

Salka Sól söng sívinsæl lög Ólafs Hauks