Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir frumvarp ráðherra ekki nýtast Airport Associates

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associa­tes sem sinnir þjónustu fyrir 20 flugfélög á Keflavíkurflugvelli, segir félagið ekki geta nýtt sér frumvarp fjármálaráðherra um greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Þetta kemur fram í umsögn forstjórans við frumvarpið.

Samkvæmt frumvarpinu geta fyrirtæki sem misst hafa 75 prósent eða meira af tekjum sínum og sjá fram á áframhaldandi tekjutap út árið sótt um greiðslur úr ríkissjóði til að fjármagna launagreiðslur starfsfólks á allt að þriggja mánaða uppsagnarfresti auk orlofs sem fólk á inni. Ákvæðið er fyrir tímabilið 1. maí til 30. september.

Sigþór segir að í frumvarpinu sé horft til tímabilsins frá 1. mars til uppsagnardags. Þetta gefi ekki rétta mynd af stöðunni því umferð um Keflavíkurflugvöll hafi að mestu leyti haldist hjá flugfélögunum. Flugstarfsemi hafi ekki dregist saman að miklu marki fyrr en í enda marsmánaðar.  

Sigþór segir að frá því að áhrifa af COVID-19 faraldrinum fór að gæta af fullum þunga hafi tekjur félagsins hins vegar dregist saman um 80 til 90 prósent. Því ætti ekki vera nein spurning að Airport Associa­tes ætti að vera í flokki fyrirtækja sem frumvarpið næði til. Vandinn sé sá að úrræðið passi ekki fyrir félagið. 

Hann segir að einföld leið til að lagfæra það væri að breyta upphafsdeginum og við mat á tekjusamdrætti væri því horft til 1.apríl.  „Ef frumvarpið gagnast ekki fyrirtæki eins og Airport Assiocates sem hefur orðið fyrir 80 til 90 prósent tekjufalli þá veit ég ekki fyrir hverja frumvarpið er hugsað,“ skrifar forstjórinn og bendir á að þegar hafi komið fram í fjölmiðlum að helsti samkeppnisaðili fyrirtækisins, Icelandair, geti nýtt sér frumvarpið. 

Í umsögninni kemur fram að félagið hafi sagt upp miklum hluta starfsfólks um síðustu mánaðamót eða 131.  Það er á lista Vinnumálastofnunar yfir þau félag sem hafa nýtt sér hlutabótaleiðina. Félagið neyddist til að segja upp 300 manns fyrir rúmu ári þegar helsti viðskiptavinur þess, WOW air, fór á hausinn. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV