Prófa ónæmislyf á mjög veikum COVID-19 sjúklingum

23.05.2020 - 06:43
Hlustunarpípa, sprauta, rör, sýnaglös. Hlutir sem læknar nota.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock
Vísindamenn í Bretlandi vonast til þess að lyf sem þegar er til gefi góða raun meðal sjúklinga sem verða hvað veikastir vegna COVID-19. Rannsóknir sýna að þeir sem hafa orðið hvað verst fyrir barðinu á sjúkdómnum eru með fáar ónæmisfrumur í líkamanum, svonefndar T-frumur. T-frumur vinna gegn sýkingum í líkamanum.

Fréttastofa BBC greinir frá því að tilraun sé hafin með lyfið interleukin 7, sem eykur fjölda T-frumna í líkamanum. Vonast er til þess að það hjálpi til í baráttunni um að ná bata. Vísndamenn hafa athugað ónæmisfrumur í blóði 60 sjúklinga, og séð að T-frumum hefur fækkað verulega hjá þeim. Í meðalmanninum eru um tvö til fjögur þúsund T-frumur í hverjum míkrólítra blóðs. Í COVID-19 sjúklingunum var fjöldi þeirra um tvö til tólf hundruð talsins.

BBC hefur eftir Manu Shankar-Hari, sérfræðingi á gjörgæsludeild Guy's og St. Thomas sjúkrahússins í Lundúnum, að flestir COVID-19 sjúklingar sem komi inn á gjörgæsludeild séu með um 400 til 800 T-frumur í hverjum míkrólítra af blóði. Þegar þeir eru að jafna sig eykst magn T-frumna á sama tíma. 

Gefur góða raun við öðrum sjúkdómum

Lyfið hefur þegar gefið góða raun í sjúklingum með blóðeitrun. Í tilraunum bresku vísindamannanna fá sjúklingar sem legið hafa lengur en í þrjá daga á gjörgæsludeild og eru með fáar T-frumur lyfið. Shankar-Hari Þeir vonast til þess að lyfið hjálpi til við að mynda fleiri ónæmisfrumur sem nái að vinna bug á veirunni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi