Opna landamærin fyrir íþróttafólk

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Opna landamærin fyrir íþróttafólk

23.05.2020 - 12:18
Chad Wolf, starfandi heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að landið kæmi til með að standa opið fyrir erlenda íþróttamenn í stærstu deildum landsins. Hann segir að Bandaríkjamenn þurfi sem aldrei fyrr á íþróttum að halda í líf sitt.

Líkt og svo mörg önnur lönd setti Bandaríkin inngöngubann í landið vegna kórónuveirufaraldursins, því hefur ekki enn verið aflétt en Chad Wolf segir í yfirlýsingu sinni í gær að á þeim tímum sem við lifum sé nauðsynlegt að koma hlutunum aftur í gang jafnt og þétt og segir að atvinnumenn í sínum íþróttum fái leyfi til að hefja keppni í sínum greinum von bráðar.

 

Gert var hlé á öllum íþróttaviðburðum Bandaríkjanna þegar kórónuveirufaraldurinn skall á en hann hefur nú orðið rúmlega 94 þúsund manns að bana þar í landi. Meðal þeirra deilda sem fá þessa undantekningu við inngöngubanni í landið eru NBA körfuboltadeildin, MLB hafnaboltadeildin, NHL íshokkídeildin og golf og tennis keppnir karla og kvenna.

 

Auk ferðatilslakana á íþróttamenn hefur ríkisstjórn Donalds Trump einnig gefið leyfi fyrir því að fjölskyldur leikmanna og fylgdarlið fái að ferðast með einstaklingum sama hvaðan þeir koma, þá eigi reglurnar sömuleiðis við um starfslið og starfsfólk liðanna.