„Óbætanlegur missir“ af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum

23.05.2020 - 23:43
epa08432574 People wait at a bus stop next to the Washington Cemetery in the Brooklyn, New York, USA, 19 May 2020. To date, over 28,000 have died in New York City as a result of the coronavirus pandemic.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
New York Times birtir á forsíðu sinni í dag nöfn eitt þúsund fórnarlamba COVID-19 í Bandaríkjunum. Það eru um eitt prósent þeirra sem eru látnir af völdum sjúkdómsins í landinu. Við hlið nafnanna eru birt aldur, heimili og örstutt ágrip um þau látnu.

Á forsíðunni segir að fjöldi látinna nálgist óðum 100 þúsund í Bandaríkjunum, „óbætanlegur missir“.

Veiran hefur valdið einna mestu tjóni í New York ríki Bandaríkjanna. Samkvæmt vef Johns Hopkins háskólans eru tilfellin þar orðin nærri 360 þúsund talsins og yfir 29 þúsund látnir. Í Bandaríkjunum öllum eru staðfest tilfelli á bilinu 1,6 til 1,7 milljónir, og um 97 þúsund eru látnir.

Færri en hundrað féllu frá í New York

Þungamiðja faraldursins í Bandaríkjunum var í New York ríki, en þar virðist hann nú í rénun. 84 létu lífið síðasta sólarhring í ríkinu af völdum COVID-19. Það eru fæstu dauðsföll vegna sjúkdómsins á einum sólarhring síðan 24. mars. Enn einn sólarhringinn falla samt fleiri en þúsund frá í Bandaríkjunum af völdum faraldursins.

Hröð útbreiðsla í Suður-Ameríku

Faraldurinn er nú hvað verstur sunnan Bandaríkjanna. Næst flest tilfelli sem hafa greinst eru í Brasilíu, yfir 340 þúsund talsins. Þau eru þó líklega mun fleiri þar sem tiltölulega fá sýni hafa verið tekin. Miðað við upplýsingar hagtöluvefsins Worldometers virðist sem rétt tæplega helmingur sýna sem hefur verið tekinn í landinu sé jákvæður. Perú og Síle eru meðal þeirra ríkja sem hafa orðið hvað verst fyrir barðinu á veirunni sé miðað við höfðatölu, og gögn frá Ekvador sýna að ríkið á í stökustu vandræðum með að hefta útbreiðslu veirunnar. 

Á heimsvísu greindust nærri 100 þúsund sýni jákvæð síðasta sólarhringinn. Það er með því mesta síðan faraldurinn hófst. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi