Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lýsa notkun á Remdesivir við COVID sem uppgötvun ársins

23.05.2020 - 15:40
Mynd með færslu
 Mynd: Gilead Sciences
Bráðabirgðarannsókn á meira en þúsund COVID-19 sjúklingum í 22 löndum bendir til þess að ebólulyfið Remdesivir minnki líkur á dauðsfalli um 80 prósent. Lyfið er til hér á landi en hefur ekki verið notað.„Þetta eru góðar fréttir. Það er alltaf þannig ef eitthvað virkar,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans. Danskir kollegar hans lýsa þessu sem uppgötvun ársins.

Rannsóknin birtist á vef New England Journal of Medicine í gær en hún var gerð í tíu löndum, meðal annars Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku.

Hún leiðir í ljós að hægt er að stytta bataferlið úr 15 dögum í 11 og minnka líkur á dauðsfalli um 80 prósent með notkun á Remdesivir.

Í umfjöllun DR kemur fram að helmingur sjúklinga fékk Remdesivir en hinn helmingurinn ekki.  Af þeim 222 sjúklingum sem voru orðnir alvarlega veikir og var gefið remdesivir létust fjórir. Til samanburðar létust 19 af 199 sjúklingum sem fengu lyfleysu. Það samsvarar 9,5 prósent andlátstíðni úr síðarnefnda hópnum en 1,8 úr þeim fyrrnefnda.

Thomas Benfield, yfirlæknir á sjúkrahúsinu í Hvidovre, segir í samtali við DR að niðurstöður rannsóknarinnar séu frábærar fréttir og líklega uppgötvun ársins.  Benfield tók  þátt í rannsókninni.  Það gerði Jens Lundgren, prófessor hjá danska Landspítalanum einnig en hann var yfir öllu evrópska teyminu. „Fyrir mánuði síðan vorum við algjörlega varnarlaus en miðað við þessar niðurstöður stöndum við miklu betur að vígi nú við meðhöndlun sjúkdómsins.“

Remdevisir er veirudrepandi lyf og var fyrst gefið við lifrabólgu-C. Það hefur síðan einnig verið notað gegn e-bólu. Benfield segir það skipta sköpum hvenær lyfið sé gefið. Það sé þegar sjúklingurinn er orðinn veikur í lungunum og þarf á súrefni að halda en áður en hann er lagður inn á gjörgæsludeild.

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir rannsóknina vera góðar fréttir. „Það er alltaf þannig ef eitthvað virkar.“ Hann segir  lyfið vera til hér á landi en það hafi ekki verið notað. „Nei, okkur hefur verið gert að nota lyfið ekki fyrr en fólk er komið í öndunarvél.“   

Ragnar Freyr Ingvarsson, fyrrverandi yfirlæknir COVID-19 göngudeildina, segir það alltaf skipta máli hvenær lyf séu gefin. Ísland standi vel að vígi þegar komi að lyfjagjöf við COVID-19 því öll helstu lyfin sem hafa verið notuð við sjúkdómnum séu til hér á landi.

Ragnar bendir enn fremur á að Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, hafi gefið til kynna að Remdesivir-rannsóknin kynni að skila jákvæðum niðurstöðum. „Þetta er fyrsta alvöru rannsóknin á meðferð við COVID-19,“ sagði Fauci á fundi með blaðamönnum í Hvíta húsinu fyrir tæpum mánuði.

Ekki liggur fyrir hvenær verður hægt að fara nota lyfið en það er mjög dýrt. Hver skammtur kostar þúsund dollara og kostnaður við meðferðina getur því numið um einni milljón.  Endanleg niðurstaða úr rannsókninni liggur fyrir í júlí og haft er eftir Lundgren að þá geti danska lyfjaeftirlitið tekið sjálfstæða ákvörðun um hvort það fái grænt ljós eða ekki.

Fréttinni hefur verið breytt og prósentureikningur leiðréttur þar sem hann reyndist ekki réttur. Hann var fenginn frá DR. Fullyrðing um 80 prósent er kominn frá einum af höfundi rannsóknarinnar, Thomas Benfield.