Horfinn heimur vídjóleigunnar

Mynd: Wikimedia Commons / cc

Horfinn heimur vídjóleigunnar

23.05.2020 - 12:01

Höfundar

Vídjóleigan var í eina tíð stór hluti af samtímanum en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan árið 2007 þegar Netflix fór að bjóða upp á streymi kvikmynda. Þrátt fyrir allt þrauka enn sumar leigur. Pistlahöfundur Lestarinnar fór í ferðalag um landið til að finna síðustu móhíkana íslensku vídjóleigunar.

Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Vídjóleigan var í eina tíð miðlægur hluti menningarlífsins. Að fara út á vídjóleigu var fastur liður í lífi milljóna manna í áraraðir um allan heim og við Íslendingar vorum þar engin undantekning. Eftir að VHS eða Video Home System-spólan var fundin upp í Japan á sínum tíma urðu gríðarlegar breytingar. Heimurinn varð ekki samur eftir. Menn þurftu ekki lengur að fara í bíó til þess að horfa á kvikmyndir. Allt í einu var hægt að njóta þeirra í heimahúsum. Bíóið var komið heim í stofu. En síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Allt breyttist með streymisveitunum svokölluðu, eftir að Netflix fór að bjóða upp á að streyma kvikmyndir árið 2007. Smám saman var ekki lengur þörf fyrir gömlu vídjóleiguna. Menn hættu að fara út á leigu eins og það var kallað. Í morgunskímu ljósvakans var leigan orðin úrelt.

En sumar leigur þrauka enn. Þær lifa sínu lífi þó að tæknin hafi breyst. Síðustu Blockbuster-vídjóleiguna í heiminum er til að mynda að finna í smábæ í Oregon-fylki í Bandaríkjunum. Þar lifir hún góðu lífi og eru spólurnar afgreiddar yfir borðið eins og ekkert hafi í skorist. Blockbuster var á sínum tíma risi á vídjóleigumarkaðnum víða um heim. Stjórnendur Blockbuster fengu reyndar nokkur tækifæri til að vinna með Netflix á sínum tíma en gengu alltaf frá borði og skutu sig þar með illilega í fótinn. Hugmyndin að Netflix varð reyndar til þegar stofnandi streymisveitunnar, Scott Hastings, fékk sekt hjá Blockbuster-vídjóleigunni upp á fjörutíu dollara, fyrir að hafa gleymt að skila spólu. 

Þótt hætt sé að framleiða VHS-spólur eru enn til grúskarar og safnarar sem hafa sérstakt blæti fyrir gömlum spólum. Hópur safnara á netinu stendur í því að skipta spólum sín á milli eða selja til áhugamanna vítt og breitt um heiminn. Það er líka til fullt af sjaldgæfum myndum á VHS sem hvergi er hægt að finna annars staðar. Einn þessara safnara sem ég ræddi við á netinu við undirbúning þessa þáttar sagði mér að svo vildi til að íslenskar spólur væru mjög sjaldgæfar og eftirsóttar, ásamt spólum frá Ísrael og Suður-Ameríku, til dæmis.

Við erum á leið í ferðalag til að hafa upp á síðustu fulltrúum íslensku vídjóleiganna og sjá á hverju þeir luma. Skoða hvað eftir er af þessari veröld sem var.

Að Strandgötu 29 á Eskifirði er Verslun Trausta Reykdal, gömul vídjóleiga sem hefur þraukað undir Hólmatindi frá árinu 1980. Þar má finna mikið magn af spólum og mynddiskum auk nauðþurfta fyrir hinn almenna Eskfirðing. Mest kemur þó í kassann af rafrettunum og vörum þeim tengdum, þar sem aðeins um 10-15 manns koma til að leigja spólur ár hvert. Trausti á sjálfur heima á efri hæð hússins en sjoppan niðri er opin frá 14-18 og síðan 20-22.30 til að hægt sé að skreppa í mat. 

Uppi á héraði býr Kiddi vídjófluga, Kristinn Kristmundsson, sem rak samnefnda leigu í mörg ár á Egilsstöðum. Kiddi fær að geyma risastórt safn sitt af spólum og DVD-myndum í sláturhúsi hjá bónda austur í Jökulsárhlíð, safn sem telur um 30-40.000 titla.

Aðalvideoleigan á Klapparstíg í Reykjavík stendur enn undir nafni. Þar er enn verið að panta eintök af nýjum kvikmyndum en spólurnar eru geymdar á bak við borðið eins og í gamla daga. Reynir Maríuson stendur vaktina og selur stundum kassa af gömlum spólum til safnara fyrir slikk því eftirspurnin er jú, ekki sú sem hún var. Í viðtali við Reyni sem birtist í Morgunblaðinu nýlega sagðist hann vera búinn að byggja upp ótrúlegt safn af kvikmyndum með útsjónarsemi, elju og miklum kostnaði. Hann vill helst finna einhverja leið til að halda safninu saman til framtíðar, til dæmis ef borgin myndi gera tilboð í safnið og leggja það inn á bókasöfnin.

Verslunin Kjötborg í vesturbæ Reykjavíjkur er kapítuli út af fyrir sig. Þar var um áraraðir hægt að leigja spólu um leið og keyptur var lambahryggur eða niðursoðnar kjötbollur í kvöldmatinn. Kaupmennirnir tveir, bræðurnir Gunnar og Kristján, hafa reyndar tekið upp á því upp á síðkastið að grisja lagerinn af VHS-spólunum og eru farnir að selja þær í stykkjatali, taka 150 krónur fyrir spóluna.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Vegur salt milli einlægni og íroníu

Pistlar

Dystópía og undarlegar kenndir á djúpvefnum

Pistlar

Söknuður eftir framtíð sem aldrei kom

Popptónlist

„Heldurðu að ég sé einhver englatík?“