Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hart sótt að Biden fyrir ummæli um svarta kjósendur

Democratic presidential candidate former Vice President Joe Biden addresses the Rainbow PUSH Coalition Annual International Convention Friday, June 28, 2019, in Chicago. (AP Photo/Charles Rex Arbogast)
 Mynd: AP
Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, hlaut mikla gagnrýni fyrir ummæli sín um þeldökka kjósendur í viðtali í gær. Þar sagði hann þá blökkumenn sem íhugi eða ætli að kjósa Donald Trump í nóvember ekki vera þeldökka. Biden baðst síðar afsökunar á ummælunum og sagði þau hafa verið kærulaus. 

Ummælin lét Biden falla í útvarpsviðtali í Bandaríkjunum í gær. Þar talaði hann um langvarandi tengsl sín við samfélag svartra Bandaríkjamanna. Minntist hann til að mynda á stórsigur sinn í forkosningum í Suður-Karólínu fyrr á árinu, þar sem meirihluti kjósenda er þeldökkur. Hann sagðist hafa hlotið meira fylgi meðal svartra í ríkinu en nokkur annar Demókrati í sögu forkosninga í ríkinu, þeirra á meðal Barack Obama. 

Þegar viðtalið var langt komið sagði aðstoðarmaður Bidens honum að hann yrði að slíta samtalinu. Útvarpsmaðurinn mótmælti og sagði hann ekki geta slitið samtali við fjölmiðla þeldökkra. Biden svaraði því til að hann gerði það hvort sem fjölmiðillinn væri í eigu svartra eða hvítra, því konan hans þyrfti á heimaupptökustöðinni að halda. Útvarpsmaðurinn bað hann þá um að koma í viðtal síðar þar sem hann væri með fleiri spurningar handa Biden. Fyrrverandi varaforsetinn svaraði þá: „Ef þú átt í vandræðum með að átta þig á hvort þú ætlir að velja mig eða Trump, þá ertu ekki svartur." Útvarpsmaðurinn sagðist þá ekkert hafa með Trump að gera, heldur vildi hann fá að vita hvað Biden ætli að gera fyrir samfélag þeldökkra Bandaríkjamanna. Biden sagði honum þá að líta á stjórnmálasögu sína, og lauk þá samtalinu.

Hrokafyllstu ummæli í langan tíma

Biden sagðist síðar hafa verið full kærulaus. Hann hafi aldrei nokkurn tímann gengið að samfélagi þeldökkra vísu. Enginn ætti að greiða nokkrum flokki atkvæði vegna kynþáttar, trúar eða bakgrunns. Repúblikanar voru forviða á ummælunum. Öldungadeildarþingmaðurinn Tim Scott, sem sjálfur er þeldökkur, sagði ummælin þau hrokafyllstu og yfirlætisfyllstu sem hann hafi heyrt lengi.

Hvaða áhrif ummælin eiga eftir að hafa á möguleika Bidens til að velta Trump úr sessi er full snemmt að segja til um. Enn er nærri hálft ár til kosninga. Biden er með smá forskot á Trump miðað við skoðanakannanir í Bandaríkjunum, bæði á landsvísu og í nokkrum helstu ríkjunum sem eiga það til að sveiflast á milli flokka.