Haraldur Franklín efstur fyrir lokadaginn

Mynd með færslu
 Mynd: GSÍ - RÚV

Haraldur Franklín efstur fyrir lokadaginn

23.05.2020 - 19:07
Fyrsta stigamót Golfsambands Íslands fer fram á Garðavelli á Akranesi um helgina. Í kvennaflokki leiðir Valdís Þóra Jónsdóttir en í karlaflokki hefur Haraldur Franklín Magnús leikið best þegar tveir hringir af þremur eru yfirstaðnir. Lokadagur mótsins er á morgun.

Haraldur Franklín spilaði einstaklega vel í dag en hann var í forystunni í gær ásamt Hákoni Erni Magnússyni. Haraldur gerði fá mistök á vellinum í dag, hann byrjaði á skolla á fyrstu holunni en eftir það lék hann á fimm undir pari og endar því á 68 höggum eða fjórum höggum undir pari. Samtals er hann því á níu höggum undir pari fyrir lokahringinn. Hákon Örn Magnússon er sem stendur í öðru sæti, höggi á eftir Haraldi.

Enginn lék þó betur en Axel Bóasson í dag en hann lék á 66 höggum. Axel fékk meðal annars örn á 16. holu vallarins.