Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Geta ekki lagt út fyrir launum í uppsagnafresti

Jóhannes Þór Skúlason
 Mynd: Þór Ægisson
Samtök ferðaþjónustunnar segja að stjórnvöld verði að falla frá þeirri kröfu að fyrirtæki leggi út fyrir launum í uppsagnarfresti áður en kemur til aðstoðar ríkisins. Framkvæmdastjóri samtakanna segir afar erfitt fyrir flest fyrirtæki í þessu árferði að leggja út fyrir launakostnaði, fá lán til þess, nýtt hlutafé eða selja eignir.

 

Stjórnvöld ætla að aðstoða fyrirtæki við að greiða laun í uppsagnarfresti til að draga úr tjóni vegna faraldurs kórónuveirunnar. Í frumvarpi fjármálaráðherra kemur fram að skilyrðin fyrir aðstoðinni eru meðal annars að uppsögn launamanns þarf að vera til komin vegna faraldursins. Þá þarf atvinnurekandi að hafa orðið fyrir sjötíu og fimm prósenta tekjusamdrætti frá 1. mars 2020 til uppsagnardags launamanns miðað við fyrri tímabil.

Þessu hefur fyrirtækið Airport Associates mótmælt í umsögn og bendir á að áhrifa faraldursins hafi ekki verið farið að gæta fyrsta mars. Fyrir vikið nýtist þessi aðstoð því eins vel og ef miðað væri við fyrsta apríl.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir þetta eiga við flest ferðaþjónustufyrirtæki. En fleira í frumvarpinu sé gagnrýnisvert. 

„Fyrirtæki eiga ekki ráð á því að leggja út fyrir laununum sum hver jafnvel þótt um sé að ræða fyrirtæki sem í eðlilegu ári væru í góðum rekstri og eru vel lífvænleg,“ segir Jóhannes.

Gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu að fyrirtækin leggi út fyrir launakostnaðinum. 

„Staða fyrirtækjanna margra hverra er þannig að það er orðið mjög erfitt og ómögulegt hjá mörgum þeirra. Þannig að það er svona hlutur sem þarf að skoða til þess að lögin nái því markmiði sínu að styrkja ferðaþjónustufyrirtæki geti þannig að þau geti lagst í dvala og vaknað á ný næsta sumar,“ segir Jóhannes.

Fyrirtæki hafi ekki mörg ráð til að eiga fyrir laununum. 

„Að selja einhvers konar eignir ef þær eru til, fá aukið hlutafé inn eða leita fyrirgreiðslu hjá sínum viðskiptabanka. Allt þetta þrennt er verulega takmarkað að möguleikum núna,“ segir Jóhannes.