Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Frásagnir vitna taldar grafa undan Cummings

23.05.2020 - 21:22
epa08438724 (FILE) - Dominic Cummings, special advisor for Britain's Prime Minister Boris Johnson arrives at 10 Downing Street, Central London, Britain, 20 April 2020 (reissued 23 May 2020). Cummings has come under pressure after it has been reported that he allegedly broke lockdown rules that were in place against the spread of COVID-19.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mál Dominic Cummings, aðalráðgjafa Boris Johnsons, forsætisráðherra Bretlands, heldur áfram að vinda upp á sig. Hann hefur verið sakaður um að hafa farið gegn fyrirmælum stjórnvalda um að ferðast ekki að nauðsynjalausu vegna COVID-19, Frásagnir tveggja vitna sem birtust í kvöld eru sagðar grafa enn frekar undan skýringum forsætisráðuneytisins á ferðum ráðgjafans.

Dominic Cummings er umdeildur í starfi sínu og þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórnarandstæðingar kalla eftir því að forsætisráðherrann reki hann.

Sögðu Cummings hafa haldið kyrru fyrir

Núna snýst þetta um ferðalag sem hann fór í ásamt konu sinni og ungu barni frá Lundúnum til Durham í byrjun apríl. Þá eins og nú var lögð rík áhersla á að Bretar færu eftir fyrirmælum stjórnvalda, héldu sig heima og væru ekki í samskiptum við fólk frá öðrum heimilum til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Forsætisráðuneytið sagði í yfirlýsingu í dag að Cummings hefði ekki brotið neinar reglur með ferð sinni, hann hefði einfaldlega verið að hugsa um hag barnsins. Hann og eiginkona hans hefðu verið með einkenni COVID-19 og því viljað tryggja að einhver gæti hugsað um barnið ef þau yrðu alvarlega veik. Fjölskylda Cummings býr í Durham.

Þau hefðu ekki verið í samskiptum við neinn en systir Cummings hefði farið í búð fyrir þau. Vörurnar hefðu þó verið skildar eftir fyrir utan.

Vitni sáu ráðgjafann á flakki

Guardian greinir frá því í kvöld að málið sé ekki alveg svo einfalt. Frásagnir tveggja vitna þykja nefnilega grafa undan skýringum forsætisráðuneytisins. Annað vitnið segist hafa séð hann heimsækja vinsælan ferðamannastað nálægt  Durham í kringum 12.apríl  en hitt kveðst hafa komið auga á hann í Durham eftir að Cummings hafði verið myndaður við Downingstræti 10. 

Annað vitnið, sjötugur efnafræðikennari á eftirlaunum, segist hafa gengið úr skugga um að þetta væri örugglega Cummings. Hann fletti því upp bílnúmerinu á bíl hans í tölvunni til að vera 100 prósent viss. „Leitin í tölvunni minni staðfestir það.“

Hitt vitnið sagðist hafa fengið áfall við að sjá Cummings í Durham svona skömmu eftir að hann hafði snúið aftur til vinnu í forsætisráðuneytinu. „Við hjónin hugsuðum með okkur að hér ætti hann ekki að vera.“

Fær Cummings að fjúka?

Forsætisráðuneytið vildi ekki tjá sig um þessar nýju ásakanir en stjórnarandstaðan telur þetta vera síðasta naglann í kistu ráðgjafans.

Heimildarmaður innan Verkamannaflokksins sagði að ef frásagnir vitnanna væru réttar „af hverju í ósköpunum eru þá ráðherrar Íhaldsflokksins að eyða púðri í að verja ráðgjafann?“

Þá hefur lögreglan á Bretlandi varað við því að þessar ásakanir komi á viðkvæmum tíma. Lögreglumenn reyni nú eftir fremsta megni að framfylgja fyrirmælum stjórnvalda í blíðviðrinu á Bretlandseyjum.