Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekkert nýtt smit í Kína síðasta sólarhringinn

23.05.2020 - 16:32
epa08437144 People wearing masks walk on the street in Guangzhou, Guangdong province, China, 22 May 2020. According to the Government Work Report delivered by Chinese Premier Li Keqiang on 22 May during the opening of the third session of the 13th National People's Congress (NPC), China has not set a GDP growth target for 2020.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
Fólk á gangi með grímur fyrir vitum í Guangzhou í Kína. Mynd: EPA-EFE - EPA
Ekkert nýtt COVID-19 smit var greint á Kína síðasta sólarhringinn. Þetta er í fyrsta sinn sem það gerist síðan þarlend yfirvöld byrjuðu í janúar að birta tölur um fjölda smita.

Fjögur smit voru greind í landinu á föstudag. Grunur er um tvö smit til viðbótar, annað í Sjanghæ, í manneskju sem var að koma frá útlöndum, og hitt í héraðinu Jilin í norðausturhluta landsins. Það er í manneskju sem talin er hafa smitast í Kína.  

Kórónuveirufaraldurinn er talinn eiga uppruna sinn í borginni Wuhan í Hubei-héraði í Kína og talið að hann hafi komið þar upp í desember. Samkvæmt tölum yfirvalda í Kína eru greind smit samtals 82.971. 4.634 dauðföll vegna COVID-19 hafa verið skráð í landinu.

Greindum smitum í Kína hefur fækkað hratt síðan í mars. Þar var gripið til víðtækra lokana, líkt og víða um heim.

Þau smit sem hafa verið greind síðustu daga hafa helst verið í Kínverjum sem hafa snúið heim frá útlöndum. Einnig hafa verið nokkur smit héruðunum Jilin og Heilongjiang, sem talin eru innanlandssmit.