Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ég er ekki mikill sjóhundur“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég er ekki mikill sjóhundur“

23.05.2020 - 13:09

Höfundar

„Ég fékk heilaæxli fyrir nokkrum árum sem truflar allan „ballans“ hjá mér,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra og liðsmaður í Almannavarna-tríóinu, sem skellti sér í kajakferð með Ölmu Möller landlækni. Hann lenti í vandræðum með að halda jafnvægi en Alma veitti honum andlegan stuðning og sýndi honum réttu handtökin.

Það er aðeins farið að hægjast um hjá Ölmu og Víði úr Almannavarnarteyminu sem héldu upp á rólegri tíma með því að kíkja saman í kajakferð í Hvalfirðinum. Alma naut sín vel á sjónum en Víðir átti í erfiðleikum með að halda jafnvægi. „Maður þarf að vera mjúkur í mjöðmunum, ég finn fyrir þeim núna,“ segir hann. „Ég er ekki mikill sjóhundur.“

Þó Víðir hafi skemmt sér vel í ferðinni segir hann að það hafi verið snúið að halda jafnvægi þegar öldugangur var mikill. „Þetta er erfitt sport upp á jafnvægið að gera. Ég fékk heilaæxli fyrir nokkrum árum á heyrnar- og jafnvægistaugina og það truflar allan ballans hjá mér,“ segir hann. 

En Víðir naut sín vel enda veðurskilyrði og félagsskapur með besta móti. Hann ólst upp í Vestmannaeyjum og hefur alltaf notið þess að skoða landið frá sjó. „Maður sér landið allt öðruvísi og mér finnst þetta ferlega skemmtilegt sjónarhorn,“ segir hann. Alma ólst upp á Siglufirði og er mjög vön siglingum. Hún er sammála því að það sé gaman að virða fyrir sér landið frá hafi.

Hægt verður að fylgjast með kajakferð þeirra Ölmu og Víðis í þættinum Úti sem er á dagskrá á RÚV á sunnudag kl. 20.25. Úti eru ferðaþættir í umsjá Brynhildar Ólafsdóttur og Róberts Marshall þar sem þau fara með landsþekkta Íslendinga í svaðilför um ósnortna náttúru Íslands.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Króli, af hverju ertu að klippa á honum táneglurnar?”

Mannlíf

Örmagna Marglyttur ældu í Grafreit draumanna