Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Cummings: Hverjum er ekki sama hvernig þetta lítur út?

23.05.2020 - 14:07
epa08439127 British Prime Minister Boris Johnson's Special Advisor Dominic Cummings departs his home in London, Britain, 23 May, 2020. Calls for Cummings' resignation have increased since news broke that Cummings broke lockdown regulations while showing symptoms for Covid-19. Countries around the world are taking increased measures to stem the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Dominc Cummings, aðalráðgjafi Boris Johnson, forsætisráðherra, segist ekki hafa gert neitt rangt þegar hann ferðaðist rúma 400 kílómetra á meðan brýnt var fyrir Bretum að vera ekki á ferðinni. „Hverjum er ekki sama hvernig þetta lítur út. Það sem skiptir máli er hvað var rétt að gera í stöðunni,“ sagði Cummings við fréttamenn. Stjórnarandstaðan á Bretlandi hefur kallað eftir því að Cummings hætti eða verði rekinn.

Hálfgert útgöngubann hefur verið í gildi á Bretlandi vegna kórónuveirufaraldursins. Bretar eiga að halda sig heima til stöðva útbreiðslu kórónuveirufaraldursins og forðast í lengstu lög samskipti við fólk utan heimilisins.

Fylgja ekki eigin fyrirmælum

Þetta hefur reynst sumum breskum ráðamönnum erfitt. Landlæknir Skota þurfti að segja af sér eftir sumarbústaðaferð og aðalvísindaráðgjafi ríkisstjórnarinnar neyddist til að hætta þegar í ljós kom að ástkona hans hafði heimsótt hann.

Nú beinast spjótin að hinum umdeilda Dominic Cummings. Guardian og Mirror greindu frá því í gær að hann hefði ferðast til Durham með eiginkonu sinni og ungu barni í byrjun apríl eða um svipað leyti og forsætisráðherrann var lagður inn á sjúkrahús. Hjónin sýndu bæði einkenni þess að vera með COVID-19 þegar þau lögðu af stað.

Vildi að einhver gæti hugsað um barnið

Á vef BBC kemur fram að forsætisráðuneytið telji Cummings ekki hafa gert neitt rangt. Hann hafi viljað tryggja að hægt yrði að sjá um barnið ef foreldrarnir veiktust illa.   Systir hans og frænka hafi boðist til að aðstoða og þess vegna hafi hann farið og dvalist í húsi nálægt þeim ef þau þyrftu hjálp.

Systir hans hafi farið í búð en skilið vörurnar eftir fyrir utan. „Það er ekki rétt að lögreglan hafi rætt við Cummings eða fjölskyldu hans eins og fullyrt hefur verið í fjölmiðlum.“

„Spurning um að gera það rétta í stöðunni“

Cummings sjálfur ræddi við blaðamenn í morgun og vísaði því á bug að hann hefði brotið lög með ferðalagi sínu. „Hverjum er ekki sama hvernig þetta lítur? Þetta er spurning um að gera það rétt í stöðunni ekki hvað ykkur finnst.“

Steve White, yfirmaður hjá lögreglunni í Durham, sagði hins vegar að ferðalag ráðgjafans hefði ekki verið „skynsamlegt“ í ljósi þeirra fyrirmæla sem bresk stjórnvöld höfðu gefið. 

Stjórnarandstaðan á Bretlandi hefur ekki verið myrk í máli. Verkamannaflokkurinn hefur kallað eftir frekari skýringum frá Cummings. Ein regla eigi ekki að gilda um hann og aðrar um breskan almenning. Ian Blackford, þingmaður skoska þjóðarflokksins, sagði tvo valkosti í stöðunni; annað hvort myndi ráðgjafinn hætta störfum sjálfur eða yrði rekinn.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Cummings reitir andstæðinga Boris Johnson til reiði. Hann er talinn vera lykilmaðurinn á bakvið kosningabaráttu forsætisráðherrans þegar kosið var um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu fyrir fjórum árum. Hann er einnig sagður hafa átt hugmyndina að því að senda breska þingið heim í september, ákvörðun sem Hæstiréttur Bretlands dæmdi ólöglega. Þá , eins og nú, var kallað eftir brottrekstri Cummings. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV