Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

30% fleiri fengu fjárhagsaðstoð

Mynd með færslu
Ráðhúsið í Reykjanesbæ. Mynd: Reykjanesbær
Samhliða auknu atvinnuleysi í vetur hefur umsóknum um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum fjölgað. Í Reykjanesbæ hefur þeim fjölgað um 30 prósent og segir Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs bæjarfélagsins, að aukninguna, enn sem komið er, sé ekki hægt að rekja beint til afleiðinga kórónuveirufaraldursins.

124 einstaklingar fengu greiddan framfærslustyrk frá Reykjanesbæ í apríl á þessu ári. Til samanburðar var fjöldinn 86 í apríl í fyrra. Fjölgunin er því rúm 30 prósent. Sömu sögu er að segja í Suðurnesjabæ. Þar fengu 12 fjárhagsaðstoð í apríl á þessu ári en voru sjö í sama mánuði í fyrra. Í sveitarfélaginu Vogum var líka fjölgun. Átta fengu fjárhagsaðstoð í apríl síðastliðnum en voru fimm í apríl í fyrra.

Aukningin í Reykjavík var rúm 13 prósent í mars, miðað við sama mánuð í fyrra. 1.294 fengu fjárhagsaðstoð frá borginni í mars í fyrra, samanborið við 1.492 í mars þetta árið. Tölur um fjölda umsókna í borginni í apríl liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Sækja um fjárhagsaðstoð þegar bótaréttur er uppurinn

„Staðan er þannig núna að það hefur fjölgað lítillega á milli mánaða en við erum ekki farin að sjá nein bein tengsl vegna COVID-19 og þessa mikla atvinnuleysis sem er á svæðinu og í sveitarfélaginu,“ segir Hera Ósk. „Við væntum þess í sjálfu sér ekki að sjá það fyrr en frekar með haustinu þegar kemur í ljós hvernig atvinnumálin þróast,“ segir hún. Í lok apríl mældist atvinnuleysi á Suðurnesjum 25 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu mældist það 19 prósent sem er yfir landsmeðaltali.

Í byrjun ársins var atvinnuleysið á Suðurnesjum orðið töluvert. Hera Ósk segir að umsóknir um fjárhagsaðstoð haldist í hendur við það hvenær fólk sé búið að fullnýta bótarétt sinn í öðrum kerfum, svo sem hjá Vinnumálastofnun. Þegar svo sé komið leiti það til sveitarfélaganna eftir fjárhagsaðstoð. Fjölgun umsókna það sem af er ári sé því ekki beintengd því mikla atvinnuleysi sem ríki vegna lokana til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. „Nú á fólk uppsagnarfrest, flestir sem hafa verið sagt upp störfum og margir eru á hlutabótarétti.“ Fólk sem eigi fullan bótarétt hjá Vinnumálastofnun fái ekki fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum. „Þannig að við sjáum þetta síðar þegar fólk fer að klára bótaréttinn sinn, ef að fólk er með skertan bótarétt hjá Vinnumálastofnun. Svo náttúrulega er fólk sem ekki á bótarétt þegar það verður atvinnulaust. Við erum meira að vinna með þeim hópi sem á minni réttindi.“

Vona það besta og að atvinnulífið fari að glæðast

Uppsagnarfrestur margra sem starfa í ferðaþjónustu rennur út í ágúst. Hera Ósk gerir ráð fyrir að langflestir þeirra eigi rétt til bóta hjá Vinnumálastofnun. Það vonist þó allir til þess að hjól atvinnulífsins verði farin að snúast í haust og að fólk fái aftur vinnu. Hjá Reykjanesbæ voni fólk það besta en undirbúi sig undir það versta en voni að það þurfi aldrei að nota þær áætlanir.

Reynslan sýnir fólk sem hefur fengið atvinnuleysisbætur í stuttan tíma kemst yfirleitt fyrst aftur út á vinnumarkaðinn, að sögn Heru Óskar. Það séu þeir sem hafi verið án atvinnu lengi eða hafi á einhvern hátt slaka stöðu á vinnumarkaði sem séu lengur að finna aftur vinnu. Það sé sá hópur sem þurfi oft meiri stuðning til að komast aftur út á vinnumarkaðinn. 

Leiðbeina fólki sem á ekki rétt á fjárhagsaðstoð

Reykjanesbær er með sömu viðmið og áður þegar kemur að því að meta umsóknir um fjárhagsstuðning. Hera Ósk segir að allar umsóknir séu skoðaðar gaumgæfilega og að fólki sé leiðbeint, ef það falli ekki undir þær skilgreiningar sem miðað er við, hvaða leiðir séu færar. 

Mynd með færslu
Sveitarfélagið Vogar. Mynd úr safni. Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV

Skoða hvert mál með tilliti til aðstæðna

Í sveitarfélaginu Vogum hafa reglur ekki verið rýmkaðar en öll mál eru skoðuð sérstaklega og lög fyrir nefnd, að því er fram kemur í svari Guðrúnar Bjargar Sigurðardóttur, sviðsstjóra fjölskyldusviðs, við fyrirspurn fréttastofu. Ef umsóknir berist frá umsækjendum sem teljist yfir tekjumörkum og þurfi aðstoð séu þau mál skoðuð sérstaklega með tilliti til aðstæðna. Það hafi verið umræða um það hvort hægt sé að mæta þeim hópi og þá reyna að styðja við barnafjölskyldur eins og með heimildargreiðslum vegna leikskólagjalda, skólamáltíða, íþrótta- og tómstunda og svo framvegis. 

Borgin hefur rýmkað reglur tímabundið

Borgarráð samþykkti á dögunum að rýmka reglur um fjárhagsaðstoð og að auka hana. Greidd verður 20.000 króna eingreiðsla með hverju barni fólks sem fékk fjárhagsaðstoð í janúar, febrúar og mars. Þá hafa reglur verið rýmkaðar til að auðvelda umsóknarferlið og fjölga þeim sem kunna að eiga rétt á aðstoð. Á vef Reykjavíkurborgar segir að til dæmis geti hjón þar sem annar maki sé erlendis átt rétt á fjárhagsaðstoð, umsækjendur þurfi ekki að skila inn staðfestingu á virkri atvinnuleit og að frítekjumörk hækki úr 207.000 krónum í 300.000 krónur hjá þeim sem sæki um aðstoð í fyrsta sinn. Þessar breytingar hjá borginni gilda frá 1. maí til 30. júní.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv