Vilja draga úr innflutningi vegna ferðamannafæðar

22.05.2020 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, hafnaði í vikunni beiðni Bændasamtaka Íslands um að fallið verði frá úthlutun tollkvóta á landbúnaðarafurðir vegna kórónaveirufaraldursins. Formaður Bændasamtakanna segir að forsendur samningsins séu breyttar þar sem engir ferðamenn séu á landinu.

Samningur um innflutning landbúnaðarafurða á milli Íslands og Evrópusambandsins er í gildi. Úthlutun tollkvóta fer fram tvisvar á ári, samkvæmt samningnum.

Fyrri forsendur ekki lengur til staðar

Bændasamtökin fóru fram á það í lok apríl að fallið yrði frá seinni úthlutun þessa árs í ljósi þeirrar stöðu sem blasir við innlendum matvælamarkaði vegna kórónuveirunnar. Faraldurinn hafi dregið úr eftirspurn eftir matvælum á innanlandsmarkaði þar sem ferðamönnum hefur fækkað mikið. Forsendur þess að tollkvótar voru auknir árið 2015 hafi verið að ástæða hafi þótt til að auka framboð vegna fjölgunar ferðamanna. Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir þær forsendur ekki lengur til staðar.

„Í ljósi aðstæðna sem eru á Íslandi þá eru forsendur samningsins  grundvallaðar af auknum ferðamannastraumi sem hefur alls ekki verið og mun ekki verða seinni hluta ársins. Okkur finnst forsendur fyrir útboði á kjötkvótanum nánast vera brostnar vegna samningsins,“ segir Gunnar.

Nóg til af mat til að anna innlendri eftirspurn

Málið var meðal annars rætt á ríkisstjórnarfundi og fengu Bændasamtökin þau svör frá ráðuneytinu að ekki væru forsendur til að falla frá útboðinu. Samningurinn veiti hvorugum aðila heimild til að falla frá útboði. Gunnar segir að forsendur samningsins séu að mörgu leyti í uppnámi.

„Í svarerindi ráðuneytisins er vísað til milliríkjasamninga en þetta eru mjög óvenjulegar aðstæður þar sem að talað er um að í þessum samningum er talað um frjálst flæði vöru, fjármagns og fólks og hluti af þessu hefur ekki raungerst eins og frjálst aðgengi túrista að Íslandi. Það er ekki raunin í núinu.“ segir Gunnar.

Hann segir að innlend framleiðsla geti annað markaðnum, sér í lagi þegar ferðamanna nýtur ekki við.

„Ef það á að koma til móts við íslenska framleiðendur í þessu ástandi þá skil ég ekki af hverju við þurfum að vera að flytja inn mat ef við eigum nóg af honum en þetta er skilgreining ráðuneytisins að við þuftum að standa okkar plikt í samningum við Evrópusambandið. Það verður þá bara að vera þannig en ég treysti því að íslenskir neytendur velji íslenskt því að nú skiptir það ansi miklu máli fyrir íslenska þjóð að velja íslenskt, og ferðast innanlands,“ segir Gunnar.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi