Veifa stúdentshúfum í átt að dróna í beinni útsendingu

Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir / Þórgunnur Oddsdóttir

Veifa stúdentshúfum í átt að dróna í beinni útsendingu

22.05.2020 - 15:32
Það verður söguleg brautskráning stúdenta Verzlunarskóla Íslands á morgun en athöfnin verður í beinni útsendingu. Aðstandendur útskriftarnema geta verið staddir hvar sem er í veröldinni og fylgst náið með hverjum nemanda taka við skírteininu og setja upp hvíta kollinn.

Alls munu 270 nemendur úr ellefu bekkjum útskrifast. Ingi Ólafsson, skólastjóri Versló, segir að nemendur hafi verið hvattir til að koma á bílum fyrir framan skólann og munu þeir svo leggja samkvæmt ákveðnu kerfi hringinn í kringum bygginguna. Byrjað verður á hópmyndatöku þar sem tveggja metra reglan verður pössuð. 

„Allir koma svo út úr bílunum með húfurnar og horfa til himins og veifa með húfunni og síðan flýgur dróni yfir,“ segir Ingi skólastjóri.

Lokapróf nemenda voru öll rafræn, í sumum greinum höfðu kennarar breytt námsmati þannig að verkefni í áfanganum giltu meira en lokaprófið en að öðru leyti var allt rafrænt.  Athöfnin verður rúmar tvær klukkustundir í heild sinni en um það bil 15 mínútur fyrir hvern nemanda inni í skólabyggingunni.  

Rætt var við Inga Ólafsson skólastjóra Verzlunarskóla Íslands í Síðdegisútvarpinu í dag. Viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.