Valkvæð 2 metra regla og helst að koma með vatn sjálfur

22.05.2020 - 18:38
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Tveggja metra reglan svokallaða verður valkvæð þegar líkamsræktarstöðvar opna á mánudag. Sóttvarnalæknir biðlar þó til fólks um virða hana eins og best má verða. Iðkendur verða hvattir til að koma með vatn í brúsa í stað þess að nota vatnsbrunna og tryggja þarf að þeir geti þrifið áhöld og tæki fyrir og eftir notkun með sóttvarnarlegi eða sápu.

Þetta kemur fram í leiðbeiningum sóttvarnalæknis fyrir líkamsræktarstöðvar. 

Margt mun breytast á mánudag þegar bann við fjöldasamkomum fer úr 50 í 200. Stærsta breytingin verður vafalítið sú að tveggja metra reglan verður ekki lengur regla heldur eingöngu valkvæð nema verið sé að veita lífsnauðsynlega þjónustu.

Sóttvarnalæknir hefur reyndar lagt áherslu á að þótt reglan verði ekki meitluð í stein ætti fólk alltaf að hafa hana í huga. Það séu sýkingavarnir hvers og eins sem eigi hvað mestan þátt í því að vinna bug á kórónuveirufaraldrinum.

Það hefur margt breyst síðan tveggja metra reglan leit dagsins ljós; örfá smit hafa greinst í maí og núna eru aðeins tveir með virkan sjúkdóm. 

Eflaust finnst mörgum það til marks um breytta tíma þegar líkamsræktarstöðvar verða opnaðar á ný.  Reyndar fannst eigendum stöðvanna illa að sér vegið þegar sundlaugar voru opnaðar fyrir tæpri viku og biðluðu til yfirvalda um að fá að opna eins og þær.  Sóttvarnalæknr svaraði þessari gagnrýni og sagði smithættuna einfaldlega meiri þar en í laugunum.

Líkamsræktarstöðvunum verður heimilt að taka við helming þeirra gesta sem þær hafa leyfi fyrir og er mælst til þess að talið verði inn í stöðvarnar ef þess gerist þörf og þeim lokað þegar hámarksfjölda er náð. World Class hefur þegar tilkynnt að útibúið í Laugardal verði opnað á miðnætti á sunnudag.  

Líkamsræktarstöðvarnar eru beðnar um að skrá hjá sér hve mörgum þær geti tekið á móti og skoða sérstaklega flöskuhálsa eins og búningsklefa því þar sé nálægðin mest.  

Mikil áhersla er lögð á hreinlæti í leiðbeiningum sóttvarnalæknis; þrífa þarf umhverfið, tæki og þjálfunarbúnað vel með sápuvatni daglega og strjúka yfir með sótthreinsandi lausn eftir hverja notkun. Þá eiga stöðvarnar að taka úr notkun þau tæki þar sem ekki er hægt að tryggja þetta. Þetta geta verið dýnur og nuddrúllur en líka þeytivinda fyrir sundfatnað

Þá vekur athygli að sérstaklega er mælt með því að aðeins tólf nýti sömu sturtu á hverri klukkustund en það þýðir sturtuferð hjá hverjum og einum upp á fimm mínútur. 

Þær stöðvar sem ætla að bjóða upp á hóptíma þurfa að tryggja að þeir sem vilja nýta sér tveggja metra regluna geti það. Handspritt þarf að vera aðgengilegt sem og sótthreinsiklútar og einnota hanskar.

Leiðbeiningar sóttvarnalæknis má finna hér.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi