Þrauka þótt tekjur verði engar út árið

22.05.2020 - 08:22
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Isavia getur þraukað þetta ár þótt svo tekjurnar verði engar segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri fyrirtækisins. Hann segir að nú eigi Keflavíkurflugvöllur að geta tekið við aukinni flugumferð hvenær sem er.

Sveinbjörn ræddi stöðu Isavia og millilandaflugs í Morgunútvarpinu á Rás 2. Fyrirtækið hefur tryggt sér tíu milljarða króna fjármögnun. Fjóra úr ríkissjóði til framkvæmda og rúma sex milljarða frá Evrópska framkvæmdabankanum. „Ef að við yrðum tekjulaus á Keflavíkurflugvelli út 2020 þá myndum við alveg þrauka það. Við erum komin með súrefni inn í 2021 sem er mjög jákvætt,“ sagði Sveinbjörn. Hann sagði að nú brenni fyrirtækið upp fé til að halda því gangandi og það þurfi því örugga fjármögnun.

Áfram horft til tengiflugs

Áfram er stefnt að því að Keflavíkurflugvöllur verði tengiflugvöllur. „Okkur er svolítið tamt að horfa til þess að dæla erlendum ferðamönnum til landsins, sem er gríðarlega mikilvægt og lífsnauðsynlegt fyrir ferðaþjónustuna en ferðaþjónustan er bara einn þáttur í heildarjöfnunni þegar kemur að áhrifum flugtenginga á hagvöxt. Þetta er aðgangur að mörkuðum sem kemur frá útflutningi, þetta er aðgangur að menningu, þetta er aðgangur að menntun. Þetta eru allt hlutir sem hafa bein áhrif á hagvöxtinn.“ Sveinbjörn sagði að Isavia hafi leyft sér að horfa fastar á heildarmyndina en ekki aðeins hvað gerist þegar fyrsta flugið kemur.

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV
Viðtalið í heild.

Læra af reynslunni

Sveinbjörn sagði að nú væri fyrirtækið í þeirri aðstöðu að læra af fyrri mistökum. „Eftir bankahrun og Eyjafjallajökul, sérstaklega eftir bankahrun, skárum við töluvert mikið niður í rekstri Isavia þannig að þegar allt fór í gang aftur vorum við ekkert sérstaklega vel undirbúin. Við erum að reyna að forðast að það gerist aftur,“ sagði Sveinbjörn. Nú séu allir starfsmenn, aðrir en framlínufólk sem þjónusta farþega beint, á fullu að vinna að undirbúningi og styrkingu ferla áður en flugið fer af stað aftur.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi