Þekkt aðferð til að rjúfa samstöðu

Mynd: Icelandair / Icelandair
Flugfreyjur sitja nú á félagsfundi og ræða stöðuna í kjaradeilunni við Icelandair. Forseti Alþýðusambandsins segir að forstjóri Icelandair beiti þekktum aðferðum til að rjúfa samstöðu flugfreyja. Aðfarir félagsins verði ekki látnar óátaldar.

Óhætt er að segja að allt sé á suðupunkti í kjaradeilu Icelandair við flugfreyjur sínar. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sendi flugfreyjum félagsins tölvupóst í gærkvöld með upplýsingum um tilboð Icelandair til Flugfreyjufélagsins. Þar segir hann að það sé í samræmi við stefnu fyrirtækisins um góða upplýsingagjöf til samstarfsfólks. Hann greinir nokkuð nákvæmlega frá nýjasta tilboði Icelandair í kjaradeilunni.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands sagði í Facebookfærslu í gær að Bogi gerðist með þessu sekur um að brjóta lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Hún segir í færslu á Facebook að hún biðji félagsmenn um að hafa fyrirvara á þeim samanburði sem Bogi gerir í bréfi sínu.

Tækni sem er þekkt úti í löndum

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands gagnrýndi aðfarir Boga í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun:  „Þetta er tækni sem er þekkt úti í löndum og heitir Union Busting, það er að segja að brjóta á bak samstöðu, draga úr vægi stéttarfélags. Ef Icelandair ætlar að haga sér svona þá vitum við ekki alveg hvert samskipti á vinnumarkaði eru komin."

Flugfreyjur sitja nú félagsfund á Hilton Nordica hótelinu til að ræða stöðuna í kjaradeilunni við Icelandair. Fundurinn er einn þriggja sem Flugfreyjufélag Íslands heldur í dag til að deila upplýsingum um framgang viðræðnanna. Formaður félagsins vildi ekki ræða við fjölmiðla fyrr en að fundunum loknum, en flugfreyjur fjölmenntu á fyrsta fundinn klukkan tíu í morgun. 

„No comment"

Einn fundargesta lýsti áhyggjum af stöðunni: „Hún er náttúrulega ekki góð, engan veginn. Þetta er bara mjög alvarlegt mál." Hún vildi ekki tjá sig um bréf Boga en kvaðst styðja formann sinn og félagið.

Önnur hafði minni áhyggjur: „Þið eruð að gera allt of mikið ljótt úr þessu. Við erum öll vinir."

Varstu sátt við bréfið frá Boga í gær?

„No comment."

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi