Segja tvo farþega hafa lifað flugslysið af

22.05.2020 - 19:52
Erlent · Airbus · Asía · flugslys · Pakistan
Mynd: EPA-EFE / EPA
Óttast er að fáir hafi komist lífs af eftir að farþegaþota með um 100 manns um borð fórst í Karachi í Pakistan í morgun. Flugstjórinn sendi út neyðarkall skömmu áður en þotan hrapaði. Minnst 73 eru látin en heilbrigðisyfirvöld í Pakistan segja að tveir farþegar hafi komist lífs af.

Þotan var í aðflugi að alþjóðaflugvellinum í Karachi þegar hún brotlenti um klukkan hálf tíu í morgun að íslenskum tíma. Hún var að gerðinni Airbus 320 og frá pakistanska flugfélaginu Pakistan International Airlines. Skömmu áður en þotan hrapaði sendi flugstjórinn út neyðarkall og sagði vélina hafa misst afl. Þotan skall til jarðar í þéttbýlu íbúðarhverfi.

Óttast að fá hafi komist lífs af

Um hundrað voru um borð, ríflega 90 farþegar ásamt sjö til átta manna áhöfn. Óttast er að fá hafi komist lífs af en fyrr í dag var haft var eftir heilbrigðisyfirvöldum í Pakistan að tveir farþegar séu á lífi. Enn er óljóst hvort líkin sem hafa fundist séu öll af fólki sem var um borð. Þau eru illa brunnin og því erfitt að bera kennsl á þau. Hugsanlegt er að fólk á jörðu niðri hafi einnig farist í slysinu. 

epa08437774 Staff of Pakistan International Airline inspect the scene after a PIA plane crashed in Karachi, Pakistan, 22 May 2020. A Pakistan International Airlines passenger flight with over 100 people on board crashed on 22 May as it was about to land near a residential area close to the airport in the port city of Karachi, a civil aviation official said.  EPA-EFE/SHAHZAIB AKBER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þotan hrapaði í miðju íbúðarhverfi

Minnst sex íbúar slösuðust og fimm byggingar eyðilöguðust þegar þotan hrapaði. Innanríkisráðherra Pakistans segir að orsök slyssins sé vélarbilun. Yfirvöld í Pakistan leyfðu flugsamgöngum að fara aftur af stað í síðustu viku. Margir eru á faraldsfæti þessa dagana þar sem Eid al-Fitr, ein stærsta hátíð múslima hefst um helgina. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi