Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir viðræður við Boeing ganga ágætlega

22.05.2020 - 21:21
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Viðræður Icelandair við Boeing um bætur vegna kyrrsettra flugvéla ganga ágætlega, að söng Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair. „Eins og ég sagði í kynningunni áðan, áður en við förum í sölu hlutafjár þá verður sú mynd skýr hvað varðar pöntunina á þessum tíu vélum sem við höfum ekki tekið við enn þá,“ sagði Bogi eftir hluthafafund flugfélagsins í dag.

Flugfélagið hafði pantað Boeing 737-MAX vélar og varð fyrir fjárhagslegu tjóni þegar þær voru kyrrsettar um allan heim í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa 2018 og 2019. 

Var það kannski lán í óláni að þið voruð ekki búin að taka við fleiri velum upp á fjárhagsstöðuna núna? „Ekkert endilega, við höfum rekið þessa stefnu að vera með sambland af nýrri og eldri velum og að mínu mati er það mjög farsæl stefna því að það kemur oft eitthvað upp í flugrekstri sem hefur áhrif á eftirspurn þó að enginn hafi átt von á þessu höggi sem að kom núna,“ segir Bogi. Þá sé mjög gott að vera með eldri vélar líka sem séu ekki með háan fjarmagskostnað. Jafnvel sé hægt að leggja þeim án þess að fjármagnskostnaður og leigugreiðslur keyri flugfélagið í kaf.

Hluthafar í Icelandair samþykktu í dag einróma hlutafjárútboð. Ráðgert er að það fari fram dagana 29. júní til 2. júlí. Í glærukynningu sem birt hefur verið í kauphöllinni kemur fram að útboðslýsing fyrir mögulega fjárfesta verði birt 16. júní.