Samþykktu hlutafjárútboð í Icelandair einróma

22.05.2020 - 16:26
Myndbandið var tekið áður en hluthafafundurinn hófst. - Mynd: EPA / RÚV
Hluthafar í Icelandair samþykktu hlutafjárútboð einróma á hlutahafafundi í dag. Ráðgert er að hlutafjárútboðið fari fram dagana 29. Júní til 2. Júlí. Í glærukynningu sem birt hefur verið í kauphöllinni kemur fram að útboðslýsing fyrir mögulega fjárfesta verði birt 16. júní. Stefnt er að því að daginn áður, eða 15. júní, verði Icelandair búið að semja við ríkið um lánalínur og við núverandi lánadrottna um skilmálabreytingar og greiðslufresti.

Á fundinum var lögð fram tillaga stjórnar um að stjórnin fái heimild til að auka hlutafé félagsins um 30 milljarða króna með útgáfu hlutabréfa. Hlutabréfin verða öll gefin út í einu eða í nokkrum skrefum. Hluthafar falla frá forkaupsrétti á nýjum bréfum og verður stjórn félagsins falið að ákveða verð bréfanna og sölufyrirkomulag.

Flugmenn samþykkja kjarasamning

Flugmenn hjá Icelandair samþykktu kjarasamning sem gerður hefur verið við Icelandair með miklum meirihluta, en rafrænni atkvæðagreiðslu lauk klukkan fjögur. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 96% og liðlega 96 prósent þeirra sem svöruðu voru samþykk samningnum, 2.6% greiddu atkvæði gegn honum og 1.18% skiluðu auðu atkvæði.

„Það er mikil ánægja að sjá samstöðu okkar fólks á þessum erfiðu tímum. Icelandair er og verður mikilvægur hluti af efnahagslífi Íslands og hryggjarstykkið í öflugri viðspyrnu í kjölfar faraldursins sem lamað hefur flugsamgöngur undanfarna mánuði,“ segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna í tilkynningu.

Ósamið við flugfreyjur og flugþjóna

Flugvirkjar hjá Icelandair samþykktu einnig nýjan kjarasamning fyrr í vikunni, en slitnað hefur upp úr kjaraviðræðum Icelandair við Flugfreyjufélag Íslands. 

Fréttinni var breytt eftir að niðurstaða hluthafafundar lá fyrir. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi