Samningur Eflingar samþykktur í atkvæðagreiðslu

22.05.2020 - 14:44
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Hveragerði og Ölfus samþykktu kjarasamning sem undirritaður var 10. maí. 118 greiddu atkvæði samþykktu allir nema einn samninginn, en sá greiddi atkvæði gegn samningnum. Atkvæðagreiðslan var rafræn og stóð frá hádegi á mánudag til hádegis í dag. 

„Með þessum samningi náðust sambærilegar kjarabætur fyrir félagsmenn okkar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Hveragerði og Ölfus og í samningum Eflingar við Reykjavík, ríki og Faxaflóahafnir. Við hljótum að fagna því og ég er stolt af staðfestu félagsmanna okkar í verkfallsaðgerðum á erfiðum tímum þar sem samstaðan og baráttuviljinn skilaði þeim sanngjarnri leiðréttingu og betri kjörum,” segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar í tilkynningu.

Stærstur hluti félagsmanna sem samningarnir ná til starfa í Kópavogi. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri sagði við fréttastofu eftir að samningar voru undirritaðir að verið væri að leggja áherslu á lægst launuðu störfin og að samningurinn hafi verið gerður í anda lífskjarasamningsins.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV