Raggi fékk bara eina töku til að fara að gráta

Mynd: Skjáskot / Trabant

Raggi fékk bara eina töku til að fara að gráta

22.05.2020 - 14:00

Höfundar

Við gerð myndbands við lagið The One með gjörningasveitinni Trabant var ákveðið að Ragnar Kjartansson, myndlistarmaður og söngvari sveitarinnar sálugu, skyldi fella tár á nákvæmum stað í flutningnum. Myndbandið var skotið á filmu og því brýnt að spandera ekki mörgum tökum. Það þurfti bara eina til.

Önnur plata gjörningasveitarinnar Trabant kom út árið 2004 og fljótlega í kjölfar útgáfunnar hafði umboðsmaður breska raftónlistarrisans Fatboy Slim samband við sveitina, ólmur í samstarf. Hann gerði remix af laginu og útgáfufyrirtækið í Englandi ákvað að nú skyldi gera tónlistarmyndband við lagið. Hljómsveitin hafði samband við Reyni Lyngdal leikstjóra og buðu honum samstarf. Leikstjórinn og hljómsveitin hittust á Prikinu og ræddu hugmyndina og útlit á myndbandinu. „Það var kokkað upp þetta konsept að Trabantliðar væru sixtísband, allir í jakkafötum og rosalega fínir. Hugmyndin var að dansa svo við sömdum dans,“ rifjar Reynir upp. „Við bjuggum hann til yfir kaffibolla. Æfðum hann aldrei,“ samsinnir Viðar H. Gíslason. 

Magni í Á Móti Sól smíðaði gullfiskagítarinn

Undirbúningur fyrir tökurnar fólst í því að kaupa konfettíbombur, smíða leikmynd og búa til litla tjörn. Viðar setti svo nokkuð óvenjulega kröfu. „Ég hugsaði að það væri geggjað að vera með svona gítar, nema plexígegnsæjan og setja gullfiska innan í. Ég teiknaði eftir honum á pappakassa og keyrði upp í Ármúla þar sem er plexíglerfyrirtæki. Spurði: Gætuð þið gert svona gítar svo ég geti sett gullfiska inn í?“

Reynir man vel eftir þessum gítar enda var hann það langdýrasta í myndbandinu. En það var ekki um annað að ræða en að splæsa í einn slíkan. „Viddi hefði ekkert verið í þessu myndbandi nema því hann fékk að gera þennan gítar.“

Um mánuði eftir að myndbandið var frumsýnt hitti Viðar Magna í Á móti sól á Hlustendaverðlaunum FM957. Þá kom nokkuð óvænt fram um gerð gítarsins. „Ég hafði aldrei talað við hann og hann bara: Heyrðu, gítarinn í vídjóinu. Ég smíðaði hann! Þá kemur í ljós að hann var var að vinna hjá þessu plexífyrirtæki, hann smíðaði þennan gítar.“

Akkúrat eitt tár, öðrum megin

Myndbandið er skotið á filmu sem þýðir að hver taka er dýr og ekki hyggilegt að taka margar. Það kom upp sú hugmynd að Ragnar Kjartansson söngvari og myndlistarmaður, myndi fella tár í alvöru þegar hann færi með ljóðlínuna: See her in the summer how she cries. 

Það tók bara eina einfalda töku og Ragnar felldi tárið, akkúrat eitt tár, öðrum megin eins og planað var. „Raggi getur fellt tár bara svona,“ segir Viðar, enn nokkuð gáttaður. „Ég veit ekki hvernig þetta er hægt.“

Fjallað verður um myndband við lagið The One í Poppkorn - sagan á bak við myndbandið kl. 20.10 í kvöld. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Þið skuldið þessum leikurum 5.000 krónur á haus“