Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óttast að umferð rafskúta verði eins og villta vestrið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur áhyggjur af aukinni notkun rafskúta bæði meðal barna og fullorðinna. Margir nota skúturnar mjög gáleysislega, eru ekki með hjálm og aka jafnvel á gangandi fólk. Nokkur slys hafa orðið í vor og yfirlögregluþjónn óttast að þau verði mun fleiri þegar líður á sumarið.

Vinsældir rafskúta, eða rafmagnshlaupahjóla, hafa vart farið fram hjá neinum undanfarið. Sífellt fleiri kjósa að nýta sér þennan ferðamáta og eru rafskútur uppseldar víða um land. 

Ölvað fólk á skútunum á kvöldin

Árni Friðleifsson,  aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar, segir að fyrst hafi farið að bera á vinsældum rafskúta hér á landi í fyrrasumar. 

„Við vorum í sjálfu sér ekki með mörg slys í fyrra, það eru einhver sex slys skráð í kerfinu hjá okkur hérna á höfuðborgarsvæðinu. Við erum þegar búin að sjá nokkur slys í vor þar sem menn eru annað hvort að falla á þessum hjólum eða lenda í árekstrum við bíla. Svona almennt hefur þetta verið vandamál víða erlendis, meðal annars á kvöldin þegar ölvað fólk er á þessum tækjum,“ segir Árni. 

Stundum mörg saman á skútu og fæstir með hjálma

Samkvæmt upplýsingum frá yfirlækni á bráðamóttöku Landspítalans hefur eitthvað verið um rafskútuslys síðustu vikur, beinbrot eftir föll og minni háttar áverka, en engin alvarleg slys enn sem komið er. Árni segir að talsvert sé um að börn séu nokkur saman á skútunum og algengt að þau séu ekki með hjálma. 

„Ég vil taka það fram að þetta er alveg frábær ferðamáti, bæði vistvænn og skemmtilegur, en það verður að nota þetta rétt,“ segir Árni. 

Fólk ekur skútunum bæði á götum og gangstéttum

Rafmagnshlaupahjól eru skilgreind sem reiðhjól í umferðarlögum og ekki má nota þau á götunni. Árni segir þó að það sé töluvert um að fólk aki hjólunum bæði á götum og gangstéttum. Þá hafi borið á tilkynningum um að fólk á rafskútum aki á gangandi vegfarendur. Hann segir lögregluna hafa áhyggjur af þróuninni.

„Þú mátt eingöngu nota þetta á göngustígum eða sérstökum hjólastígum. Og við höfum töluverðar áhyggjur af því að þetta verði svona dálítið villta vestrið hjá okkur.“ 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV